„10 árum á eftir hinum“

Samvinna skólaskrifstofa sveitarfélaga, grunnskóla og foreldra hefur gefið góða raun …
Samvinna skólaskrifstofa sveitarfélaga, grunnskóla og foreldra hefur gefið góða raun í þremur sveitarfélögum. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Nokkrir grunnskólar í Reykjanesbæ, Árborg og Hafnarfirði koma mun betur út í þessari PISA-könnun en í þeirri síðustu. Ástæðan er meðal annars sú að skólar í þessum sveitarfélögum hafa farið markvisst í lestrarverkefni í samstarfi við Menntamálastofnun. Þetta segir Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, en hann ræddi um tillögur að úrbótum í ljósi niðurstaðna PISA 2015 á kynningarfundi á greiningu niðurstaðna úr PISA 2015 í Háskóla Íslands í dag. 

Grunnskólarnir í þessum sveitarfélögum fóru í þetta lestrarverkefni í fyrra og er það hluti af þjóðarsáttmála um læsi sem öll sveitarfélög á landinu skrifuðu undir árið 2015. Lestrarverkefni er samvinnuverkefni svokallaðs ráðgjafalæsisteymis. Samvinnan felst í því að skólaskrifstofa sveitarfélaga, skólastjórnendur, kennarar og foreldrar vinna að sameiginlegu og skýru markmiði að bæta lestur og lesskilning einstaklingsins. Stuðningur við kennara er aukinn meðal annars með því að veita þeim leiðsögn um hvernig styðja megi við og bæta lestur nemenda.  

Alls taka 45 sveitarfélög á landinu af um 70 þátt í lestrarverkefninu. Fleiri minni sveitarfélög taka þátt í þessu verkefni en þau stærri. „Þau hafa minna stoðkerfi í kringum sig en þau stærri,“ segir Arnór. 

Arnór segist vongóður um að bæting verði á lestri og lesskilningi lakasta hópsins með því að nota þessa aðferð. Ef lakasti hópurinn í öllum skólum myndi halda áfram að bæta sig eins og úrtak úr þessum skólum sýnir verður Ísland komið yfir meðaltal OECD-ríkjanna ef áfram heldur sem horfir, að sögn Arnórs.

Brugðumst seint við

„Já,“ svarar Arnór afdráttarlaust, spurður hvort ekki hafi verið brugðist of seint við slöku gengi íslenskra barna í PISA-könnun sem var lögð fyrir árið 2012. Í þessu samhengi bendir hann hins vegar á að það sé vel hægt að snúa þessari þróun við og vitnar í grunnskóla í fyrrgreindum sveitarfélögum. „Það væri skrýtið ef við næðum ekki að snúa þessu við,“ segir hann.

Í þessu samhengi bendir hann á að eftir hrunið árið 2008 hafi fjármagn til skóla minnkað. Nokkru síðar hafi innleiðing á nýrri námskrá verið lögð til. Í henni er meðal annars lögð áhersla á lykilhæfni sem PISA mælir. „Það er fyrst núna sem hægt er að ná tökum á þessu og veita skólum viðeigandi stuðning við innleiðinguna. Við erum 10 árum á eftir hinum Norðurlöndunum,“ segir Arnór.  

Menntastofnun er treg til að veita upplýsingar um gengi ákveðinna skóla í PISA-könnun. „Við erum að skoða hvort við gefum sveitarfélögum þessar upplýsingar. Við teljum það ekki heppilegt,“ segir Arnór. Hann bendir á að PISA-könnunin sé fyrst og fremst mat á menntakerfinu og hún eigi því að vera notuð til að vinna úr niðurstöðunum en ekki hengja hana á tiltekna skóla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert