Besta útgáfan af strákum

Bjarni ásamt sonum sínum Bjarti Fritz sex ára og Baldri …
Bjarni ásamt sonum sínum Bjarti Fritz sex ára og Baldri Fritz níu ára, hann á líka ársgamla dóttur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hvernig geta strákar eflt sjálfa sig og náð betri árangri í því sem þeir taka sér fyrir hendur? Í sjálfstyrkingarbókinni Öflugir strákar - Árangur er engin tilviljun bendir Bjarni Fritzson strákum á ýmsar leiðir til að styrkja sjálfsmynd sína, verða óstöðvandi, lifa í núinu, taka frumkvæði og fara út fyrir kassann.

Tilvistarspurningarnar Hver ert þú og fyrir hvað stendur þú? eru grunnstefið í nýrri sjálfstyrkingarbók fyrir 12 til 20 ára stráka, Öflugir strákar - Árangur er engin tilviljun, eftir Bjarna Fritzson. Þessum spurningum og mörgum fleiri er beint til lesenda, sem bókina í gegn fá margs konar vegvísa og verkefni til að styrkja sig og um leið sjálfsmyndina; verða besta útgáfan af sjálfum sér. Aukinheldur eru í henni leiðbeiningar um hegðun og framkomu og hagnýtur fróðleikur um ýmsa þætti hins daglega lífs, til dæmis fjármál, heilsu og hollustu.

Í ljósi þess hver höfundurinn er og fyrir hvað hann stendur kemur áherslan á heilbrigðan lífsstíl ekki á óvart.

„Ég er 36 ára, faðir tveggja stráka og stelpu, og eiginmaður. Minn sterkasti bakgrunnur er í gegnum íþróttir og sálfræðinám, en ég er að vinna í meistaraverkefni mínu í félags- og vinnusálfræði í Háskóla Íslands. Ég hef spilað handbolta frá unga aldri og verið landsliðs- og atvinnumaður. Núna starfa ég sem þjálfari meistaraflokks ÍR í handbolta og er yfirþjálfari félagsins. Fyrir þremur árum skrifaði ég bókina Strákar ásamt Kristínu Tómasdóttur og í kjölfarið stofnuðum við fyrirtækið Út fyrir kassann sem sérhæfir sig í sjálfstyrkingarnámskeiðum fyrir stráka og stelpur. Ég hef áralanga reynslu af starfi með börnum og unglingum, hef unnið á leikskóla, félagsmiðstöð, verið forfallakennari og þjálfari,“ svarar Bjarni spurningunum tveimur sem bókin leggur upp með. Vart þarf að taka fram að svarið er stutta útgáfan af Bjarna Fritzsyni.

Venjulegur íþróttadrengur

Varst þú fyrirmyndarbarn og unglingur?

„Ha, ha! Ég var bara fínn, bara ágætur, held ég. Nokkuð hress og brasaði ýmislegt. Eiginlega bara venjulegur íþróttadrengur.“

Kom þér til góða að vera liðtækur í íþróttum?

„Alveg pottþétt, bæði félagslega og til þess að hafa að einhverju að stefna, sem er mjög mikilvægt í lífinu. Það bæði styrkir mann andlega og líkamlega að þurfa að standa undir ákveðnum kröfum og æfa og keppa við erfiðar aðstæður. Ég hef lengi stúderað andlega þáttinn til að hjálpa sjálfum mér og í seinni tíð til að hjálpa öðrum, enda átti ég frekar auðvelt með að skrifa þessa bók,“ svarar Bjarni og víkur þannig talinu fimlega að nýju bókinni, sem hann vill frekar ræða um en sjálfan sig.

Þótt hann hafi alltaf verið á kafi í íþróttum segir hann Öfluga stráka alls ekki einskorðast við þá sem vilja ná langt á því sviði. „Bókin fjallar um hvernig strákar geta náð góðum árangri í öllu sem þeir taka sér fyrir hendur og hugur þeirra stendur til. Ég er búinn að vera strákur býsna lengi og þekki hugarheim stráka vel. Í fyrsta kaflanum segi ég nokkrar dæmisögur af sjálfum mér, enda fannst mér hálfkjánalegt að taka dæmisögur af öðrum í þeim hluta sem snýst um mikilvægi þess að vera maður sjálfur. Í hinum köflunum er fullt af hugleiðingum og dæmisögum mætra manna; rappara, íþróttakappa, heimspekinga, uppfinningamanna og fleiri – sem og stráka sem hafa verið hjá mér á námskeiðinu Öflugir strákar.“

Upp úr dúrnum kemur að bókin er sprottin af samnefndum sjálfstyrkingarnámskeiðum fyrir stráka sem Út fyrir kassann hefur boðið upp á um þriggja ára skeið og Bjarni hefur veg og vanda af. „Það má segja að ég hafi verið búinn að prufukeyra efnið í bókinni þegar við réðumst í að gefa hana út. Viðbrögð bæði strákanna á námskeiðinu og foreldra þeirra gáfu mér byr undir báða vængi.“

Öðruvísi upplifun

Koma strákar að eigin frumkvæði á námskeiðin?

„Fyrst í stað sendu mömmurnar þá. Sumir voru hálfsmeykir og vissu ekki almennilega út í hvað þeir væru að fara. Námskeiðin hafa spurst vel út og núna vita flestir að hverju þeir ganga. Margir hafa þó sagt að upplifunin hafi komið á óvart og verið skemmtilegri en þeir áttu von á. Ég byggi bókina einnig á námskeiðinu Leiðtogar framtíðarinnar fyrir 14-16 ára, sem er undirbúningur fyrir framhaldsskóla og ég hef verið með í nokkur ár.“

Eru áhyggjur stráka eða af strákum öðruvísi en þegar stelpur eiga í hlut?

„Strákar virðast eiga erfiðara uppdráttar á mörgum sviðum. Samkvæmt rannsóknum eru þeir slakari í lestri, þeir flosna í meira mæli upp úr framhaldsskólum og eru fyrir vikið færri en stelpur í háskólanámi. Það er almennt búið að vinna rosalega gott starf með stelpum, þær eru hvattar til að elta drauma sína og efldar í þeirri hugsun að þær geti allt. Við þurfum að vinna á svipaðan hátt með strákum, tala meira við þá og hjálpa þeim að finna styrkleika sína í stað þess að einblína á það sem miður fer.“

Bjarni segir góðan árangur af námskeiðunum hafa orðið sér hvatning til að halda með boðskapinn út á ritvöllinn. Hann vildi gera hann aðgengilegri; ná til fleiri – efla fleiri stráka. Öfugt við fyrri bókina, Strákar, kemur hann ekkert inn á samskipti kynjanna, ástamál, útlit, gelgjuvandamál og þvíumlíkt í nýju bókinni. „Markmið mitt var að ná til stráka og því ákvað ég að skrifa beint til þeirra. Í sjálfu sér gætu stelpur þó nýtt sér og tileinkað sér flest sem í henni er.“

Heilbrigður lífsstíll

Án þess að predika fer Bjarni mörgum orðum um mikilvægi heilsusamlegs lífs. Fjórði kaflinn af sex í bókinni nefnist Þú ert lífsstíllinn sem þú lifir og eru upphafsorðin eftirfarandi: „Þú getur litið á lífið eins og pening. Þú getur eytt því á hvaða máta sem þú vilt, en eyðir því aftur á móti aðeins einu sinni. Njóttu þess að vera til og lifðu lífinu til fulls.“

„Heilbrigður lífsstíll er grundvöllur þess að strákar geti verið öflugir. Þeir þurfa að passa sig að hafa svefninn í lagi, borða hollan mat og hreyfa sig. Slíkt hefur gríðarleg áhrif á hvernig þeim líður með sjálfan sig og hvaða árangri þeir ná. Í þriðja kaflanum, Vertu óstöðvandi, tengi ég íþróttir svolítið við árangur, en í rauninni gildir einu í hverju strákar vilja ná árangri eða skara fram úr. Þeir verða bara að finna hæfileikum sínum réttan farveg og hafa gaman af því sem þeir eru að gera.“

Og vera þeir sjálfir væntanlega eins og þú ráðleggur í fyrsta kafla?

„Um leið og strákar – og stelpur líka ef því er að skipta – átta sig á eigin sjálfsmynd með kostum og göllum geta þeir unnið að því að hafa jákvæð áhrif á hana. Þeir verða sáttari við sjálfa sig og þeim líður miklu betur en ella. Í fyrsta kaflanum fer ég jafnframt yfir gildin, kenni þeim að finna sín eigin gildi og nota þau síðan sem áttavita í lífinu.“

Með hvaða hætti?

„Hver og einn ákveður sín gildi, sem felast í því sem hann vill standa fyrir. Gildin hjálpa honum að taka ákvarðanir í hvers kyns aðstæðum. Eina sem maður getur í rauninni stjórnað og haft áhrif á er maður sjálfur, hvernig maður bregst við, hegðar sér og hugsar.“

Í bókinni fer Bjarni öllu dýpra í sjálfsmynd stráka, gildin og allt það sem hann trúir að verði þeim til gæfu og gengis í lífinu. Þar sem hann á tvo stráka, 9 og 6 ára og eins árs stelpu er ekki úr vegi að spyrja hvort hann hyggist nota sömu aðferðir í uppeldi hennar og strákanna?

„Við Tinna [Baldursdóttir] konan mín höfum rætt þetta töluvert. Ég satt að segja er ekki viss, en hlakka mikið til að takast á við uppeldi hennar. Synir okkar eru hins vegar mjög ólíkir. Sá eldri er kraftmikill og alltaf á fullu, en sá yngri rosalega varkár. Ef hann fengi að ráða myndi hann alltaf kúra með iPadinn sinn undir teppi í sófanum hjá mömmu sinni – sem hann kemst náttúrlega ekki upp með af því ég er pabbi hans. Ég mun kappkosta að gera öll börnin mín bestu útgáfuna af sjálfum sér.“

Vertu þú sjálfur: Sjálfstraustsprófið

Ef þú ert í vafa um sjálfstraust þitt, getur þú leyst eftirfarandi próf:

A. Átt þú auðvelt með að tala við fólk sem þú þekkir lítið?
1. mjög auðvelt
2. frekar auðvelt
3. hvorki né
4. frekar erfitt
5 mjög erfitt

B. Ert þú öruggur í nýjum og óþekktum aðstæðum?
1. mjög öruggur
2. frekar öruggur
3. hvorki né
4. frekar óöruggur
5. mjög óöruggur

C. Ert þú ánægður með útlit þitt?
1. mjög ánægður
2. frekar ánægður
3. hvorki né
4. frekar óánægður
5. mjög óánægður

D. Átt þú auðvelt með að taka að þér krefjandi verkefni?
1. mjög auðvelt
2. frekar auðvelt
3. hvorki né
4. frekar erfitt
5. mjög erfitt

E. Býrð þú yfir hæfileikum?
1. mjög mörgum
2. frekar mörgum
3. hvorki né
4. frekar fáum
5 mjög fáum

F. Ert þú klár?
1. mjög klár
2. frekar klár
3. hvorki né
4. frekar vitlaus
5. mjög vitlaus.

G. Hefur þú trú á sjálfum þér?
1. mjög mikla
2. frekar mikla
3. hvorki né
4. frekar litla
5. mjög litla

Leggðu nú saman stigin. Því fleiri stig sem þú færð, þeim mun minna sjálfstraust hefurðu.

7-12 stig: Þú ert með mjög gott og mikið sjálfstraust.
13-18 stig: Þú ert með frekar gott sjálfstraust.
19 - 24 stig: Þú mættir alveg vera með meira sjálfstraust.
25 - 30 stig: Þú ert því miður með of lítið sjálfstraust.
30 - 35 stig: Þú ert því miður með rosalega lítið sjálfstraust.

Íþróttastrákur. Bjarni t.h. á Tomma-móti í Vestmannaeyjum.
Íþróttastrákur. Bjarni t.h. á Tomma-móti í Vestmannaeyjum.
Myndin er í kaflanum Leiðtogi framtíðarinnar og vísar til þess …
Myndin er í kaflanum Leiðtogi framtíðarinnar og vísar til þess að þegar Bjarni var lítill dreymdi hann um að verða leiðtogi og æfði sig heima.
Sjálfstyrkingarbókin Öflugir strákar
Sjálfstyrkingarbókin Öflugir strákar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert