Búa ekki yfir nægri þautseigju

Nemendur skortir þrautseigju til að leysa verkefni sem þau hagnast …
Nemendur skortir þrautseigju til að leysa verkefni sem þau hagnast ekki á sjálf, að sögn grunnskólakennara. Golli / Kjartan

„Það er alltaf hluti nemenda sem hefur metnað fyrir námi sínu á meðan aðrir hafa ekki metnaðinn og þrautseigjuna sem þarf til að taka þátt í því sem þau hagnast ekki á sjálf,“ segir Valgerður Guðrún Johnsen, náttúrufræðikennari í Seljaskóla, spurð hvers vegna íslenskir nemendur hafi ekki komið vel út í PISA-könnun, þeim hefur hrakað mikið á síðastliðnum áratug í náttúruvísindum. 

Nemendur fá sjálfir ekki niðurstöður úr PISA-könnuninni. Valgerður bendir á að það sé erfitt að fá nemendur til að taka þátt í slíkri könnun af fullri alvöru og sýna metnað þegar þau fá ekki niðurstöðuna svart á hvítu. Valgerður segist jafnframt ekki vita hvers vegna nemendum í öðrum löndum vegni betur að leysa þetta verkefni en þeim íslensku.    

Hún segir að það hafi komið til tals þar sem hún kenndi áður að nemendur fengju pitsuveislu í verðlaun eftir PISA-könnun. Hún segist ekki ýkja hrifin af því fyrirkomulagi því það sé líka hægt að kenna krökkum að leggja sig fram við að gera eitthvað án þess að þurfa alltaf að fá verðlaun í lokin. „Nemendur reyna allt of oft að sleppa auðveldu leiðina. Við í skólakerfinu þurfum að laga þetta og bæta úthald nemenda svo þeir klári verkefnin og geri það vel,“ segir Valgerður. 

Valgreinar á kostnað náttúrufræði

Hún bendir á að margir samverkandi þættir hafi áhrif á útkomuna í PISA-könnuninni. Varðandi náttúrufræðikennsluna bendir hún á að vægi hennar innan kjarnagreina á Íslandi hefur minnkað á kostnað annarra greina eins og til dæmis valgreina svo sem heimilisfræði, handavinnu og smíði. „Auðvitað er gott að þau börn sem eiga erfitt með bóknám geta valið um annað,“ segir Valgerður. Hún bendir á að takmarkaður tími sé til að kenna nemendum námsefnið sem þeir þurfa að tileinka sér. Í þeim löndum sem Ísland ber sig saman við fá nemendur allt að helmingi fleiri kennslustundir í náttúrufræði á unglingastigi, að sögn Valgerðar. 

„Faglegt og flott starf“

„Kennarar í kennslu skipta gríðarlega miklu máli. Það þarf að vera mjög gott samband milli nemenda og kennara til að ná árangri. Með þeim kennurum sem ég hef verið að vinna með í gegnum tíðina er unnið mjög faglegt og flott starf,“ segir hún spurð hvort kennarar beri ekki ábyrgð þessari niðurstöðu. Í þessu samhengi bendir hún á að töluverður tími kennara fari í agamál á kostnað kennslunnar. Í skólunum er einnig fjöldi barna sem eru með sértækar greiningar eins og til dæmis ofvirkni, lesblindu, greindarskerðingu og einhverfu svo dæmi séu tekin. Það þurfi að sinna þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert