Dæmdar bætur vegna handtöku

mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag íslenska ríkið til þess að greiða karlmanni 800 þúsund krónur í miskabætur vegna handtöku í tengslum við rannsókn á meintri vændisstarfssemi. Maðurinn var handtekinn þar sem hann var að afgreiða viðskiptavini veitingastaðar í Reykjavík sem rannsókn lögreglunnar beindist að. Maðurinn neitaði því að hafa verið starfsmaður staðarins. Hann hafi einungis verið að aðstoða vin sinn sem starfað hefði þar sem barþjónn. Það hefði hann stundum gert þegar óvenjumikið hefði verið að gera líkt og umrætt kvöld.

Rannsókn lögreglu á manninum var felld niður þar sem gögn málsins töldust ekki líkleg til sakfellingar en maðurinn var handtekinn 25. október 2013 ásamt öðrum sem þar voru við störf í kjölfar þess að lögregla framkvæmdi húsleit á veitingastaðnum. Óeinkennisklæddum lögreglumönnum hafði áður verið boðin kynlífsþjónusta á staðnum. Manninum var meðal annars haldið í einangrun í 11 daga vegna rannsóknar á aðild hans að málinu. Sagðist hann fyrir dómi hafa liðið andlegar kvalir meðan á einangrunarvistinni hafi staðið.

Lögmaður íslenska ríkisins sagði allar aðgerðir lögreglu hafa verið lögmætar og staðfestar af dómstólum. Maðurinn hefði komið með mismunandi skýringar á veru sinni á veitingastaðnum annars vegar í yfirheyrslum hjá lögreglunni 26. október 2013 og síðan 30. október. Þetta hefði verið til þess fallið að torvelda rannsóknina og þar með haft áhrif á þann tíma sem maðurinn hefði setið í gæsluvarðhaldi. Maðurinn hefði fyrir vikið að mati ríkisins stuðlað að þeim aðgerðum sem hann byggði bótakröfu sína á og ætti því ekki rétt bótum.

Maðurinn fór fram á 3 milljónir króna í bætur en voru sem fyrr segir dæmdar 800 þúsund krónur með dráttarvöxtum. Málskostnaður var felldur niður en gjafsóknarkostnaður mannsins var greiddur úr ríkissjóði. Þar með talin málsvarnarlaun verjanda hans upp á 600 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert