Endurreisn Íslands vel á veg komin

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gerði grein fyrir fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 á Alþingi og sagði að það hafi verið lagt fram við nokkuð óvenjulegar aðstæður.

Við eðlilegar aðstæður hefði átt að leggja frumvarpið fram á fyrsta degi þings, annan þriðjudag í september, en frumvarpið hafi verið lagt fram af starfsstjórn sem situr tímabundið. Að sögn Bjarna eru þrjú fordæmi fyrir því, eða frá árunum 1945, 1947 og 1950.

Bjarni sagði að fjárlagafrumvarpið sé í fyrsta sinn lagt fram á grundvelli nýrra laga um opinber fjármál. Í þeim sé sérstök áhersla lögð á langtímahugsun og stöðugleika.

Batnað ár frá ári

„Afkoma ríkissjóðs hefur batnað ár frá ári eftir að sjálfvirk skuldasöfnun var stöðvuð með fjárlögum ársins 2014,“ sagði hann og bætti við að þetta væri fjórða árið í röð þar sem gert er ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs.

„Með markvissum aðgerðum hefur tekist að ná jafnvægi í ríkisfjármálum,“ sagði hann.  Nefndi Bjarni að áætlað er að heildarskuldir ríkissjóðs lækki um nærri 200 milljarða á yfirstandandi ári. Fyrir árslok 2017 er reiknað með að þær verði komnar að nafnvirði niður í 1.000 milljarða króna.

Hagfelldar hagspár

„Leiðarstef ríkisstjórnarinnar hefur verið að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og treysta umgjörð opinberra fjármála,“ sagði hann og tók fram að stefnan hafi verið að einfalda skattkerfið, draga úr undanþágum og auka jafnræði.

„Efnahagsleg endurreisn Íslands er vel á veg komin. Hagspár fyrir næstu ár eru hagfelldar, verðbólga er lítil, kaupmáttur vex, atvinnustigið er hátt og atvinnuleysið með því minnsta sem við höfum séð.“

Þensla getur ógnað jafnvægi

Bjarni tók þó fram að ekki sé hægt að horfa fram hjá því að vaxandi líkur eru á því að þensla kunni að ógna jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Áfram sé því þörf á aðhaldssamri stefnu. Enn um hríð verði helsta úrlausnarefnið að grynnka á skuldum.

„Það sem við höfum í höndunum er fjárlagafrumvarp sem lagt er fram þegar vel árar hjá Íslendingum. Tekjur eru að vaxa og við erum að fá aukið svigrúm til að gera betur á flestum stigum,“ sagði hann.

Bætti hann við að aukin framlög hafi verið sett í heilbrigðis-, samgöngu-, menntamál og aðra mikilvæga innviði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert