Fyrsta skóflustungan fyrir nýjum skóla

Krakkarnir tóku skóflustungu að nýjum skóla í Mosfellsbæ.
Krakkarnir tóku skóflustungu að nýjum skóla í Mosfellsbæ. Ljósmynd/Mosfellingur

Fyrsta skóflustungan að nýjum leik- og grunnskóla í Helgafellshverfi í Mosfellsbæ var tekin í dag. Skóflustunguna tóku væntanlegir nemendur skólans sem stunda nú nám í Brúarlandi. Sá skóli er undanfari stofnunar Helgafellsskóla og er rekinn sem útibú frá Varmárskóla. Nemendunum til halds og trausts voru bæjarfulltrúar í Mosfellsbæ.

„Það er stór stund í hverju bæjarfélagi þegar tekin er fyrsta skóflustunga að nýrri skólabyggingu. Skólar eru kjarni samfélagsins og í kringum þá er fjölbreytt og síbreytilegt mannlíf,“ sagði Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, við þessi tímamót.

„Mosfellsbær leggur áherslu á að hlúa vel að skólastarfi og að hér þrífist framsækið og jákvætt námsumhverfi fyrir börn og starfsfólk. Það mikilvægt fyrir uppbyggingu í Helgafellshverfi að hafin sé framkvæmd leik- og grunnskóla á svæðinu,“ bætti Haraldur við.

Bygging skólans verður stærsta einstaka framkvæmd sveitarfélagsins á næstu misserum. Heildarstærð hússins verður um 7300 fm og áætlaður byggingarkostnaður um 3500 milljónir. Skólinn verður byggður í fjórum áföngum og áætlanir gera ráð fyrir að fyrsti áfangi verði tekin í notkun haustið 2018.

Fullbyggður mun skólinn hýsa um 600 börn á grunnskólaaldri og um 110 börn á leikskólaaldri. Auk þess verður hann vinnustaður um 130 starfsmanna.

Hönnuðir eru Yrki Arkitektar og um jarðvinnu sér Karina ehf. 

Svona mun hluti skólans líta út þegar hann er tilbúinn.
Svona mun hluti skólans líta út þegar hann er tilbúinn. Ljósmynd/Mosfellsbær
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert