Hrafn GK skammt frá Siglufirði

Frá Siglufirði.
Frá Siglufirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við förum bara að detta inn í fjörðinn fljótlega,“ segir Róbert Gils Róbertsson, skipstjóri á Hrafni GK en skipið, sem gert er út af útgerðarfélaginu Þorbirni í Grindavík, fékk veiðarfæri í skrúfuna í morgun þegar það var statt norðaustur af Grímsey. Tómas Þorvaldsson GK, sem einnig er í eigu félagsins, var að veiðum á sömu slóðum og tók Hrafn GK í tog í hádeginu.

Skipin eru nú á leið til Siglufjarðar og verða komin þangað líklega eftir rúma eina og hálfa klukkustund. Róbert segir veður hafa verið gott og það eina ábyrga að gera í stöðunni að láta draga skipið í land. Mikil áhætta hefði verið í því að reyna að gangsetja vélina aftur. Það hefði getað valdið milljónatjóni. Hvað nákvæmlega hafi gerst komi í ljós á morgun.

Róbert segir að væntanlega hafi línan farið í skrúfuna en það verði kannað þegar í land komi. Hreinsa þurfi skrúfuna og kanna hvort nokkrar skemmdir hafi orðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert