Litla lundapysjan heillar

Örn Hilmisson með íslensku útgáfuna af sögunni um Litlu lundapysjuna, …
Örn Hilmisson með íslensku útgáfuna af sögunni um Litlu lundapysjuna, sem faðir hans samdi. mbl.is/Ómar Garðarsson

„Það er svo mikið við þessa sögu sem segir að hún hafi alltaf átt að koma út,“ segir Örn Hilmisson.

Hann var driffjöðrin í því að barnabókin Litla lundapysjan kom út árið 2012, en það var faðir hans, Hilmir Högnason, sem skrifaði söguna. Bókin er aðeins seld hér á landi en hefur samt verið gefin út á 12 tungumálum og fjölskyldan telur það hljóta að vera Íslandsmet.

„Hún er til á íslensku, ensku, dönsku, norsku, sænsku, þýsku, frönsku, pólsku, spænsku, ítölsku, japönsku og kínversku – svo bauðst einn til að þýða hana á arabísku um daginn,“ segir Örn léttur í bragði. Hann segir að ferðamenn sem hingað komi séu heillaðir af sögunni og hún sé einnig vinsæl gjöf frá íslenskum börnum sem hafi flutt til útlanda. Þá séu dæmi þess að bókin sé notuð við kennslu erlendis.

Lífsbarátta lundapysju

„Ég sá söguna, skrifaða á blað, innan um annað dót hjá pabba, las hana og kolféll fyrir henni. Ég horfði svo framan í pabba og sagði að við yrðum að gera eitthvað meira með þetta og hann kinkaði ánægður kolli,“ segir Örn. Hilmir, sem lést árið 2014, skrifaði söguna upphaflega fyrir dóttur sína, sem kenndi þá í sunnudagaskóla í Vestmannaeyjum. Bókin fjallar á einlægan hátt um lífsbaráttu lundapysju frá því að hún skríður úr egginu og flýgur úr hreiðrinu í átt að ljósunum í bænum. Þar reyna börnin að bjarga henni og koma henni aftur út á sjó en ævintýrin eru aldrei langt undan. Bókin er myndskreytt af Gunnari Júlíussyni.

„Þegar bókin kom fyrst úr prentun á fjórum tungumálum vissu mamma og pabbi ekki hvernig þau áttu að vera – litla sagan var orðin svona stór,“ segir Örn. Hann segir að fjölskyldan hafi sameinast um að klára verkefnið og koma bókinni út svo að fleiri gætu notið sögunnar.

„Pysjan segir sjálf frá í bókinni og það væri alveg hægt að færa ævintýrið yfir á mannanna börn því þetta snýst um lífið sjálft,“ segir hann. „Um það þegar börnin eru orðin nógu stór til að sjá um sig sjálf, og þurfa því að yfirgefa heimilið og mömmu og pabba.“

Tóti gefur „eiginhandarádritun“

Örn Hilmisson starfar í náttúrugripasafninu Sæheimum í Vestmannaeyjum þar sem hann segir ferðamönnum glaður frá því hvernig sagan um litlu lundapysjuna varð til. Þá skemmir ekki fyrir að lundinn Tóti, sem býr á safninu, heldur uppi fjörinu á meðan. „Hann gefur stund
um eiginhandarádritanir á bækurnar,“ segir Örn hlæjandi. Bókin um litlu lundapysjuna er seld í Sæheimum en hún er einnig til sölu í bókaverslunum. „Þegar ég var að setja fyrstu bækurnar í hillurnar í Sæheimum kom stúlka röltandi með fyrstu lundapysjuna á árinu. Þá fékk ég gæsahúð og sannfærðist um að þessi saga átti alltaf að koma út.“

Litla lundapysjan hefur verið gefin út á 12 tungumálum.
Litla lundapysjan hefur verið gefin út á 12 tungumálum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert