Krotuðu í ferninginn og notuðu rangan bókstaf

Vafaatkvæðin 54 höfðu engin áhrif á úrslit alþingiskosninganna og þingið …
Vafaatkvæðin 54 höfðu engin áhrif á úrslit alþingiskosninganna og þingið samþykkti kjörbréf allra þingmanna og varaþingmanna. mbl.is/Golli

Kjörbréfanefnd Alþingis tók til athugunar á fundi sínum í fyrradag 54 atkvæðaseðla frá nýliðnum kosningum, sem ágreiningur var um í yfirkjörstjórnum. Þrír seðlanna voru úr Suðurkjördæmi, 32 úr Reykjavíkurkjördæmi suður og 19 úr Reykjavíkurkjördæmi norður.

Að sögn Birgis Ármannssonar, formanns kjörbréfanefndar, voru vafamálin sem komu oftast upp við þessar kosningar af tvennum toga.

Annars vegar þegar kjósendur voru að krota í reitinn fyrir framan listabókstaf og hins vegar þegar menn voru við utankjörfundaratkvæðagreiðslu að setja inn gamlan listabókstaf framboða.

Stuðst við fordæmi

Birgir segir að nefndin hafi við ákvarðatökuna stuðst við ákveðin fordæmi frá fyrri kosningum. „Við vorum meðvituð um að þau væru ekki endilega sterk en þau voru þau einu sem við höfðum fyrir framan okkur.“ Samkvæmt kosningalögunum skal kjósandi setja bókstafinn X í reitinn fyrir framan listabókstaf viðkomandi flokks. Nokkur dæmi voru um að kjósendur skyggðu ferning fyrir framan listabókstaf eða krotuðu með sambærilegum hætti í ferninginn. Þessi atkvæði voru úrskurðuð ógild. Þá voru nokkur dæmi um það að kjósendur notuðu gamlan listabókstaf þegar þeir greiddu atkvæði utan kjörfundar. Langalgengast var að menn skrifuðu Þ, sem er gamli bókstafur Pírata, í stað P. Ef menn greiddu atkvæði með listabókstaf sem framboð notaði áður var það talið gilt.

Birgir Ármannsson segir að á síðasta kjörtímabili hafi staðið yfir vinna við endurskoðun kosningalaganna. Núgildandi lög voru samþykkt árið 2000. Drög að frumvarpi hafi legið fyrir í haust. Brýnt sé að halda þeirri vinnu áfram. Var það niðurstaða kjörbréfanefndar að við þá vinnu yrði tekin umræða af hálfu löggjafans um hvort ætti að fylla frekar inn í þau ákvæði kosningalaganna sem fjölluðu um ógild atkvæði. Mikilvægt væri að fækka álitamálum sem upp kynnu að koma.

Umfjöllun kjörbréfanefndar hafði ekki áhrif á niðurstöðu kosninganna. Var það einróma niðurstaða nefndarinnar að kosningarnar væru gildar. Lagði hún til að Alþingi samþykkti kjörbréf allra alþingismanna og varamanna þeirra. Gekk það eftir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert