Þarf að auka kröfur í kennaranáminu

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Það má spyrja sig hvort farið hafi verið of geyst á stað með að lengja kennaranámið og það gæti hafa komið niður á gæðum námsins,“ segir Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálarfræði við Háskólann í Þrándheimi í Noregi og Háskólann í Reykjavík.

„Það þarf að hugsa um innri gæði kennslunnar. Það þarf að skoða hvernig kennaramenntunin er og hvernig kennarar eru að koma út úr háskólunum. Norðmenn eru nú að hugsa um að lengja kennaranámið í 5 ár en það tekur 5 til 10 ár að byggja það upp, á Íslandi var nánast byrjað daginn eftir að ákvörðunin var tekin,“ segir Hermundur.

Of mikil hugsmíðahyggja

Í kjölfarið á slakri niðurstöðu íslenskra nemenda í PISA-könnuninni sem var kynnt í fyrradag segir Hermundur að snúa verði við hverjum steini í menntakerfinu; skoða kennaramenntun, hvað sé verið að kenna í skólunum, hvaða aðferðafræði sé notuð og hvort verið sé að láta börnin ráða of miklu í staðinn fyrir að fylgja þeim vel eftir og láta þau standa sig.

„Það er of mikil hugsmíðahyggja á Íslandi sem kemur því miður ekki vel út úr rannsóknum. Það þarf að fókusera meira á grunnfögin; lestur, stærðfræði og náttúruvísindi og skilning á vísindahugtökum og rannsóknum. Við verðum að forgangsraða hvað sé mikilvægt. Öll fög byggjast á að geta lesið textann sem þú ert að fást við og það er enginn tilgangur að koma með tölvur inn í kennsluna ef enginn getur lesið,“ segir Hermundur og gagnrýnir að stór hluti skóla noti ekki viðurkenndustu aðferðafræði í lestrarkennslu, hljóðaðferð. Lestrarkennslu verði að setja í forgang.

Þá segir Hermundur að mikilvægt sé að virkja heimilin í að styðja við nám barnanna og þá verði þau börn sem fá ekki stuðning heima að geta fengið hann í skólanum. „Það krefst gífurlega mikils af kennurum, að kenna krökkum sem hafa engan áhuga né stuðning heima og þá komum við inn á laun kennara. Ef við eigum að geta krafist mikils af kennurum þurfum við að geta boðið þeim mannsæmandi laun. Á meðan launin eru ekki hærri í kennarastéttinni er þriggja ára kennaranám, sem vel er gert, nóg.“

Hermundur segir að taka verði PISA-könnunina alvarlega og sameiginlegt átak þurfi til að breyta menntakerfinu.

Raunvísindakennsla hefur slaknað

Meyvant Þórólfsson, dósent við menntavísindasvið Háskóla Íslands, telur að slaknað hafi mjög á kennslu raunvísinda í skólum sem gæti skýrst af því að það vantar kennara í þeim fögum. Sem dæmi séu aðeins að meðaltali 4 til 5 kennaranemar í árgangi í kennaranáminu við HÍ sem velji náttúruvísindi sem aðalkjörsvið, ástæðan sé m.a. sú að þeir sem sæki í kennaranámið komi yfirleitt af félagsvísindabrautum úr framhaldsskólunum og þekki lítið til raunvísindanáms.

„Náttúruvísindi voru í forgrunninum núna í PISA-könnuninni og þar lendum við akkúrat á tíma þar sem breytingar hafa átt sér stað vegna innleiðingar nýrrar aðalnámskrár. Ég er ekki sáttur við þá námskrá og gang mála í kjölfar hennar, sér í lagi þátt náttúruvísinda. Hefði frekar viljað halda áfram að vinna með námskrána 1999.“

Meyvant segir að slaknað hafi á kröfum í námsgreinum og að kennsluhættir hafi líklega verið að breytast um of í útþynnta þemakennslu. „Það vantar festu og skýrari fókus í námið og kennsluna.“

Hann vill að menntun kennara verði gerð miklu markvissari og skýrari og gerðar meiri kröfur til kennara varðandi kunnáttu í stærðfræði, náttúrufræði og íslensku. „Ég tel að það megi auka til muna kröfurnar í kennaranáminu og að fleiri myndu sækja í það ef svo yrði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert