Tugir milljóna í uppihald

Hælisleitendur streyma til landsins.
Hælisleitendur streyma til landsins. mbl.is/Styrmir Kári

Um það bil 820 einstaklingar eru í dag hælisleitendur á Íslandi, en vegna skorts á húsnæði hefur Útlendingastofnun neyðst til að hýsa hluta þessa fólks á hótelum í Reykjanesbæ og á höfuðborgarsvæðinu.

Í skriflegu svari Útlendingastofnunar til Morgunblaðsins kemur m.a. fram að fjöldi hælisleitenda sem nú gista á hótelum sé um 240 og er kostnaður fyrir hvert hótelherbergi um 15.000 krónur nóttin. Í sumum tilfellum gista fleiri en einn einstaklingur í hverju herbergi, t.a.m. þegar um er að ræða barnafjölskyldur. „Þessi fjöldi sem nú gistir á hótelum hefur aldrei verið meiri, en við höfum þó séð svipaðan fjölda áður,“ segir Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, í samtali í Morgunblaðinu í dag.

„Þetta eru dýrustu úrræðin sem við höfum og um leið og pláss losnar annars staðar tökum við fólk út af hótelum. Álagið er hins vegar mjög mikið og það hafa komið dagar þar sem um 40 manns óska eftir hæli, en undanfarna þrjá mánuði hefur það verið þannig að fleira fólk kemur inn í kerfið en fer út úr því,“ segir hún.

Þeir hælisleitendur sem ekki gista á hótelum eru vistaðir í húsnæði í Reykjavík, Hafnarfirði og á Kjalarnesi. Alls leigir Útlendingastofnun húsnæði á 13 stöðum á höfuðborgarsvæðinu og er leigukostnaður, samkvæmt skriflegu svari stofnunarinnar, um 36 milljónir á mánuði. Við þessa upphæð bætist hótelkostnaður sem skiptir mörgum tugum milljóna á mánuði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert