Katrín og Bjarni stjórni landinu

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og forseti Alþingis og núverandi …
Sturla Böðvarsson, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og forseti Alþingis og núverandi bæjarstjóri. mbl.is/Styrmir Kári

„Það er mitt mat að flest hefði gengið á annan veg ef Sjálfstæðismenn og Vinstri grænir hefðu haldið saman um stjórnartauma þegar bankakerfið hrundi,“ segir Sturla Böðvarsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ráðherra og forseti Alþingis og núverandi bæjarstjóri Stykkishólms, á Facebook-síðu sinni í kvöld þar sem hann kallar eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn og VG taki við stjórn landsins „í samstarfi við gott fólk.“

Sturla rifjar upp að eftir þingkosningarnar 2007 hafi hann átt von á því að Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn með VG. Hann hafi orðið þess var að þáverandi formenn flokkanna, Geir H. Haarde og Steingrímur J. Sigfússon, hafi átt í einhverjum samtölum í aðdraganda kosninganna sem hafi meðal annars varðað afgreiðslu samgönguáætlunar. Samgönguáætlun fyrir tímabilið 2007-2010 hafi verið samþykkt skömmu fyrir þinglok en langtímaáætluninni frestað.

„Mun það hafa verið liður í því að ná samkomulagi við VG. Meira um það síðar. Ég taldi það betri kost að mynda stjórn með VG en Samfylkingunni á þessum tíma. Einn aðalhöfundur og ábyrgðarmaður stjórnarsamstarfs við Samfylkinguna vorið 2007 var trúlega þáverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins sem nú er í óða önn að koma á vinstri stjórn í landinu á vegum flokks sem kennir sig við Viðreisn svo undarlegt sem það nú er,“ segir hann.

Sturla segist nefna þetta vegna þess að hann telji að svipuð staða sé uppi og hafi verið 2007. „Því eigi Sjálfstæðisflokkurinn að mynda stjórn með VG. Af minni löngu reynslu í stjórnmálum tel ég að fyrir þjóðina væri best ef þau Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson tækju við að stjórna landinu saman með stuðningi þess hluta Framsóknarflokksins sem er tilbúinn til slíkra verka. Vonandi verður það niðurstaðan. Þá mun takast að byggja hratt og vel upp innviði okkar góða samfélags á öllum sviðum enda vel búið í haginn af okkar farsæla fjármálaráðherra hvað efnahagsmálin varðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert