„Byssubræður“ neita sök

Söluturninn í Iðufelli.
Söluturninn í Iðufelli. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Tveir bræður á þrítugsaldri, sem ákærðir hafa verið fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og ólögmæta nauðung fyrr á þessu ári, neituðu sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. 

Ákæran er í fjórum liðum, en í þeim fyrsta er bræðrunum gefið að sök að hafa ráðist á mann við söluturninn Leifasjoppu við Iðufell í Breiðholti, í mars síðastliðnum. Á annar þeirra að hafa skvett vatnsblönduðu ammoníaki í andlit mannsins. Í kjölfarið hafi þeir báðir slegið hann ítrekað með kylfu og spýtu í höfuð og líkama.

Þá eru þeir sagðir hafa beitt annan mann ólögmætri nauðung í júlí, með því að neyða hann til að aka bifreið á tiltekinn stað á höfuðborgarsvæðinu, með hótunum um ofbeldi. Ók maðurinn bifreiðinni að verslun 10-11 við Smáralind í Kópavogi, þar sem hann gerði lögreglu viðvart.

Neituðu bræðurnir sök gagnvart báðum ofangreindum ákæruliðum.

Neita sök um skotárás

Hins vegar játuðu þeir hvor sitt umferðarlagabrotið, annað í febrúar og hitt í júlí, en í báðum tilvikum voru þeir undir áhrifum vímuefna við aksturinn, áður en lögregla stöðvaði bifreiðina.

Bræðurnir tveir, sem fæddir eru árin 1987 og 1988, hafa einnig verið ákærðir vegna skotárásar í Fellahverfi í Breiðholti í ágúst síðastliðnum. Hafa þeir sömuleiðis neitað sök í því máli.

Frétt mbl.is: Blóðkám fannst á byssunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert