Ekki mansal vegna frís fæðis og húsnæðis

Konurnar tvær bjuggu í húsi í Vík í Mýrdal og …
Konurnar tvær bjuggu í húsi í Vík í Mýrdal og unnu þar fyrir eiganda hússins. Þær fengu fæði og húsnæði og peningar voru sendir úr landi fyrir aðra konuna. Þeir fóru þó ekki til hennar.

Það má í raun vera með fólk á heimilinu hjá sér í vinnu ef fólkinu er boðið frítt fæði og húsnæði, jafnvel þótt greiðslur fari til þriðja aðila. Þrátt fyrir augljósar vísbendingar sem bendi til mansals þá sé þetta ekki mansal. Þetta er niðurstaða ákvörðunar saksóknara að ákæra ekki í meintu mansalsmáli í Vík að sögn Kristrúnar Elsu Harðardóttur, réttargæslumanns kvennanna tveggja sem málið snýst um.

Þar sem konurnar höfðu látið í ljós þá skoðun sína við rannsókn málsins að þær hefðu ekki áhuga á að láta málið fara lengra segir Kristrún að hennar vinnu sé lokið. Hún geti ekki kært ákvörðun héraðssaksóknara til ríkissaksóknara án þess að konurnar óski eftir því. Þær séu löngu farnar utan og vilji ekkert meira gera.

Virðast ekki hafa skilning á hegðun mansalsfórnarlamba

Segir Kristrún að samkvæmt sínu mati sé þetta með alvarlegri brotum í þessum málaflokki sem hún viti um, þótt málin séu ekki mjög mörg hér á landi. „Þetta byggir á því að héraðssaksóknari virðist ekki hafa skilning á því hvernig mansalsfórnarlömb hegða sér og hvernig þau líta á málið,“ segir hún og bætir við: „Þau líta oft á tíðum ekki á sig sem fórnarlömb.“

Þekking á hegðun fórnarlamba í málum sem þessum er þó til staðar hjá lögreglu og sérstakur fulltrúi var sendur til að aðstoða lögregluna á Suðurlandi við rannsókn málsins að sögn Kristrúnar. Segir hún að lögreglan hafi haldið rétt á spilunum í þessu máli og við rannsókn þess. Aftur á móti virðist þekkingin ekki vera til staðar eftir því sem hærra sé farið í kerfinu.

Í lagi þótt þær fengju ekki greitt sjálfar

Hún segir að meginniðurstaðan í rökstuðningi saksóknara um að fella mansalshlið málsins niður sé að deilt sé um hversu vinnuframlag kvennanna sé mikið og þá hafi konurnar fengið frítt fæði og húsnæði þar sem þær bjuggu og störfuðu. Þá hafi verið greitt fyrir störf annarrar konunnar með greiðslum erlendis. Þeir fjármunir hafi þó ekki farið til konunnar sjálfrar. Ekkert hafi reyndar fundist um greiðslu til þeirrar sem hafi verið í styttri tíma, en það skýrt með að ekki hafi verið komið að mánaðamótum og því átt eftir að greiða henni laun. Þetta virðist teljast næg staðfesting fyrir saksóknara að greitt hafi verið fyrir vinnuna að sögn Kristrúnar.

Kristín Elsa Harðardóttir, lögmaður og réttargæslumaður kvennanna tveggja. Hún segir …
Kristín Elsa Harðardóttir, lögmaður og réttargæslumaður kvennanna tveggja. Hún segir málið borðliggjandi dæmi um mansal.

„Þetta er borðleggjandi dæmi“

Kristrún segir að konurnar hafi sjálfar sagt að þær ynnu ekki svo mikið, þó margt hafi bent til þess gagnstæða. Það væri enda oftast svo að þolendur greini ekki frá meintum brotum enda telji þeir ekki að neitt brot hafi átt sér stað. „Fórnarlömb mansals setjast ekkert niður með lögreglu og segja frá öllu sem á daga þeirra hefur drifið í fyrstu atrennu,“ segir Kristrún. Hún segir aftur á móti klárt hjá sér að um mansal hafi verið að ræða í skilningi laganna. „Það liggur fyrir að hér var vinnuframlag. Aðilar sem bjuggu heima hjá viðkomandi og það var verið að fela vinnuna og greiðslur fóru ekki til kvennanna,“ segir Kristrún. Ein skilgreining á mansali sé meðal annars sú að einhver nýti sér bága aðstöðu annars og að ekkert sé borgað beint. „Þetta er borðleggjandi dæmi.“

Ákvörðun saksóknara er að sögn Kristrúnar ekki þessleg að sérfræðingur í málefnum tengdum mansali hafi farið yfir málið. Þá segir hún að í svona máli hefði verið rétt að fara með málið fyrir dómstóla og leyfa þeim að taka lokaákvörðun, en ekki að láta málið daga uppi.

Vonandi ekki endapunkturinn í mansalsrannsóknum

Kristrún segist vonast til þess að þetta verði ekki endapunkturinn þegar kemur að rannsóknum og mögulegum ákærum í mansalsmálum. Þegar blaðamaður spyr Kristrúnu hvað þurfi að vera til staðar svo ákært sé í meintum mansalsmálum segist hún hreinlega ekki vita það fyrst að þetta mál fór ekki alla leið. Svo virðist vera sem farið hafi verið yfir málið og tikkað í einhver fyrirframákveðin box sem lúta að því hvernig hið týpíska mansalsmál eigi að vera og fyrst að ekki var hægt að tikka í öll þeirra hafi verið ákveðið að þetta væri ekki mansalsmál.

Aðgerðaáætlun en lítið gert

Kristrún segir að þrátt fyrir að komin hafi verið flott aðgerðaáætlun í innanríkisráðuneytinu varðandi mansalsmál vanti mikið upp á að hlúð sé að fórnarlömbunum eftir að mál komi upp og varðandi fræðslu annarra en þeirra sem vinni á gólfinu um eðli mansalsmála. „Hið opinbera fræðir þá sem eru á gólfinu, til dæmis lögregluna og félagsráðgjafa, en þeir sem taka ákvörðun hvort málið fari áfram og þeir sem dæma, þeir þurfa líka að hafa þekkingu,“ segir Kristrún. Hún tekur þó fram að hún viti til þess að einhverjir starfsmenn saksóknaraembættanna hafi farið á námskeið í málaflokknum eftir að þetta mál kom upp. Síðan þurfi að horfa til þess að dómarar fái einhvers konar fræðslu í málum sem þessum.

Varðandi að hlúa að fórnarlömbunum segir Kristrún að ekkert hafi verið gert til þess að halda þeim hér á landi eða koma þeim út úr þeim aðstæðum sem þær voru í. Þannig hafi í raun eina lausnin fyrir þær verið að bíða í kvennaathvarfinu á meðan málið væri í vinnslu. Slíkt gæti tekið mánuði og jafnvel meira en ár þegar gert sé ráð fyrir að málið klárist fyrir dómstólum. Á meðan fái þær ekki að vinna og framfærsla þeirra sé um 5 þúsund á viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert