Hælisleitandi ákærður fyrir nauðgun

Maðurinn var úrskurðaður í farbann af Héraðsdómi Reykjavíkur.
Maðurinn var úrskurðaður í farbann af Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, um að erlendur karlmaður skuli sæta farbanni vegna gruns um kynferðisbrot. Maðurinn, sem er hælisleitandi og dvelur á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, hefur verið ákærður af héraðssaksóknara fyrir nauðgun.

Segir í ákæru að hann hafi beitt konu ólögmætri nauðung að kvöldi föstudagsins 11. mars síðastliðinn, lagst ofan á hana og haft við hana samræði, þrátt fyrir að hún hafi sagt honum að hún vildi það ekki og beðið hann um að hætta.

Greindi frá á neyðarmóttökunni

Fram kemur í úrskurðinum að barnaverndarnefnd hafi óskað eftir lögreglurannsókn málsins í kjölfar þess að brotaþoli greindi frá nauðguninni á neyðarmóttöku Landspítalans. 

Við rannsókn málsins hafi ákærði verið yfirheyrður þrisvar sinnum og hafi hann neitað sök og sagt að hann hefði ekki haft kynferðislegt samneyti við brotaþola,“ segir hinum áfrýjaða úrskurði.

„Meðal rannsóknargagna málsins séu niðurstöður DNA-rannsóknar þar sem fram komi að DNA-snið úr sýni af nærbuxum brotaþola sé hið sama og DNA-snið ákærða. Þá liggi fyrir samskipti brotaþola og ákærða af facebook fyrir og eftir umræddan dag, sem og framburðir vitna.

Manninum synjað um hæli

Þá segir að Útlendingastofnun hafi synjað manninum um hæli og að mál hans sé núna til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála. Héraðssaksóknari telji hættu á að hann kunni að reyna að komast úr landi og því nauðsynlegt að tryggja að svo verði ekki.

Farbannið gildir til þriðjudagsins 3. janúar næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert