Hafnar ásökunum Hreiðars Más

Ólafur Hauksson saksóknari í réttarsal.
Ólafur Hauksson saksóknari í réttarsal. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Hauksson héraðssaksóknari segir að embættið hafni öllum ásökunum um að á ótilhlýðilegan hátt hafi verið staðið að verki við rannsókn mála sem tengist Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings og í öðrum málum sem embættið hefur haft til rannsóknar. Að öðru leyti verði svarað fyrir allar ásakanir sem settar hafa verið fram í dómsal.

Segir saksóknara hafa valið sér dómstól og dómara

Í morgun var greint frá því að Hreiðar Már hefði stefnt íslenska ríkinu til greiðslu miskabóta vegna rannsókna embættis sérstaks saksóknara, sem síðar varð að embætti héraðssaksóknara, í málum sem tengdust sér.

Sagði Hreiðar Már í aðsendri grein í Fréttablaðinu að sérstakur saksóknari hefði fengið hlerunarbeiðnir gegn sér stimplaðar af dómara Héraðsdóms Vesturlands þrátt fyrir að embættið væri staðsett í Reykjavík og þeir sem átti að hlera ættu lögheimili erlendis og dvöldu í Reykjavík á þeim tíma. Sagði Hreiðar saksóknara með þessu bæði velja sér dómstól og dómara, þar sem embættið hefði ekki getað vitað hvaða dómari fengi málinu úthlutað færi það til Héraðsdóms Reykjavíkur.

Svarað fyrir kæruatriði í dómsal

Vísaði Hreiðar Már til þess að Ólafur og dómarinn Benedikt Bogason, sem var þá dómari við Héraðsdóm Vesturlands og er í dag hæstaréttardómari, hefðu gegnt embættisstörfum í réttarkerfi Vesturlands á sama tíma og áður verið saman í námi við lagadeild Háskóla Íslands og unnið saman hjá sýslumanninum í Hafnarfirði.

„Við höfnum öllum ásökunum um að á ótilhlýðilegan hátt hafi verið staðið að verki,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is Hann segir málið nú til meðferðar hjá ríkislögmanni eins og önnur skaðabótamál sem höfðuð séu gegn ríkinu. „Það verður svarað fyrir þetta í þeim dómsmálum sem sett hafa verið fram,“ segir Ólafur og bætir við að um sé að ræða atriði sem hafi sumpart borið upp í sakamálum sem tengjast umræddum hlerunum. Þar hafi þessi atriði ekki fengið mikinn hljómgrunn dómstóla. Að öðru leyti segist Ólafur ekki vilja tjá sig um málið.

Al Thani málið til Mannréttindadómstólsins

Þetta er ekki fyrsta mál sem Hreiðar Már höfðar í tengslum við málarekstur gegn sér. Fyrst ber að nefna að eftir að dómur féll í Hæstarétti í svokölluðu Al-Thani máli var málinu skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Var það meðal annars gert á þeim forsendum hvernig staðið hafði verið að hlerunum og takmarkaðs aðgangs verjanda að gögnum málsins. Þá töldu ákærðu í málinu að skoða þyrfi meint vanhæfi dómarans Árna Kolbeinssonarvegna tengsla eiginkonu og sonar hans við Kaupþing. Að lokum var sett út á að því hefði verið hafnað að kalla fyrir tvö lykilvitni í málinu, þá Al Thani og Sheikh Sultan.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mannréttindadómstóllinn óskaði fyrr á þessu ári eftir því að íslensk stjórnvöld myndu svara spurningum dómstólsins í fjórum liðum sem tengjast málinu. Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars Más, staðfestir í samtali við mbl.is að ríkið sé nýlega búið að svara þessum spurningum og nú vinni verjendur að málinu.

Kæra vegna aðgangs að gögnum máls

Fyrr á þessu ári lagði Hreiðar Már einnig fram kæru á hendur embætti sérstaks saksóknara til ríkissaksóknara. Óskaði hann eftir rannsókn á að gögn sem lutu að sakarefni í Chesterfield-málinu, sem einnig er þekkt sem CLN-málið hafi ekki ratað í gögn málsins.

Sagði Hörður þá í samtali við mbl.is að ákærðu hafi ekki fengið aðgang að öllum gögnum málsins, nema þeim sem embættið taldi sjálft mikilvægt. Þannig hafi þeir til dæmis fengið takmarkaðan aðgang að tölvupóstum viðskiptastjóra bankans eftir úrskurð héraðsdóms, en umræddir póstar hafi svo skipt miklu um sýknu héraðsdóms í málinu. „Þetta vek­ur spurn­ing­ar um hvernig staðan er í hinum mál­un­um sem við feng­um eng­an aðgang að gögn­um í,“ sagði Hörður þá við mbl.is.

Hörður segir að upphaflega hafi málið verið kært í vor og svo fylgt eftir í sumar. Síðan þá hafi hann sent eina áréttingu um stöðu málsins hjá ríkissaksóknara en hingað til ekkert heyrt né fengið viðbrögð við kærunni frá ríkissaksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert