Jarðskjálftahrina í Bárðarbungu

Bárðarbunga.
Bárðarbunga. mbl.is/Árni Sæberg

Skjálftahrina varð í Bárðarbunguöskjunni í nótt milli klukkan fjögur og fimm. Stærsti skjálftinn var 4,2 að stærð klukkan 4:29. Tveir aðrir skjálftar af stærð 3,8 og 3,9 mældust stuttu áður á sama stað. Enginn órói fylgdi þessum skjálftum, segir á vef Veðurstofu Íslands.

Um 420 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands 28. nóvember - 4. desember og er það svipaður fjöldi og mældist í síðustu viku og vikuna þar á undan.

Virknin var með tiltölulega hefðbundnu sniði á flestum stöðum á landinu en nokkru meiri í Svínahrauni á Hellisheiði en oft áður. Undir Mýrdalsjökli mældust um 70 skjálftar svipað og vikuna á undan og stærsti skjálftinn þar mældist 2,7 stig.

Jarðskjálfti að stærð 2,7 átti upptök um 5 km norðvestur af Húsavík 29. nóvember og fannst hann á Húsavík. Engar stærri hrinur urðu í vikunni og stærsti skjálftinn var 3,2 að stærð við Kolbeinsey úti fyrir Norðurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert