Stefnir í 90% kosningaþátttöku

Grunnskólakennarar geta kosið um nýgerðan kjarasamning til kl. 16 í …
Grunnskólakennarar geta kosið um nýgerðan kjarasamning til kl. 16 í dag og stefnir í 90% kosningaþátttöku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Atkvæðagreiðslu grunnskólakennara vegna kjarasamnings Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitafélaga lýkur klukkan fjögur í dag. Kosningaþátttaka vegna þessa samnings hefur verið töluvert betri en vegna samninganna tveggja sem grunnskólakennarar hafa fellt í ár.

Að sögn Ólafs Loftssonar, formanns Félags grunnskólakennara, höfðu 87% kennara greitt atkvæði um hádegi í dag. „Þetta verður því væntanlega rétt um 90% kosningaþátttaka,“ segir og kveður það vera svipað hlutfall og áður en kosningarnar urðu rafrænar. „Þetta er nær því sem við viljum sjá og sem við vorum vanari að sjá hér í gamla daga.“

Hann bendir á að kosningaþátttaka almennt hafi verið að dala undanfarin ár. „Þannig að mér sýnist við geta vel við unað með svona tölur.“

Auðu atkvæðin geta skipt máli

Sú umræða hefur komið upp hjá grunnskólakennurum um helgina að auð atkvæði verði látin gilda sem já og hefur þetta vakið töluverðan óróa hjá kennurum.

Ólafur segir þessa umræðu væntanlega sprottna út frá því sem gerðist hjá lögreglumönnum. Þar kusu 315 lögreglumenn að fella samninginn en 308 samþykktu hann, á meðan að 11 atkvæði voru auð. Þar sem fjöldi þeirra sem synjuðu samningnum náði ekki 50% var litið svo á að hann hefði verið samþykktur.

„ Kjörstjórn sem sér alveg um þessi mál,“ segir hann.  „En ef svo ólíklega vill til að staðan verði alveg hnífjöfn, þá sýnist mér að þá geti auðu atkvæðin farið að skipta máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert