Rómeó og Júlía Íslendingasagnanna

Sella Páls í húsinu sínu á Eyrarbakka þar sem hún …
Sella Páls í húsinu sínu á Eyrarbakka þar sem hún sinnir ritstörfum og öðrum hugðarefnum sínum.

Leikskáldið og rithöfundurinn Sella Páls hefur lifað viðburðaríku lífi, lengst af í Bandaríkjunum en þó alltaf með annan fótinn á Íslandi. Hún hefur átt og rekið veitingastaði vestanhafs, framleitt feikivinsæla söngleiki sem gengu árum saman í New York og fleiri borgum, átt netfyrirtæki, verið ráðgjafi hjá SÁÁ, skrifað og sett upp leikrit hér og þar, gert heimildarmynd og áfram mætti telja.

Síðustu árin hefur hún helgað sig ritstörfum og gaf nýverið út Girndarráð, sagnfræðilega skáldsögu, byggða á Skáldhelgarímum.

Þorkatla Halldórsdóttir og Helgi Þórðarson eru í huga Sesselju Pálsdóttur Rómeó og Júlía Íslendingasagnanna. Þeirra er getið í Landnámu og eru talin fædd stuttu fyrir aldamótin 1000. Skáldhelgarímur, kenndar við nefndan Helga, hverfast að stórum hluta um harmrænar ástir þeirra og eru ortar á 14. eða 15. öld eftir týndri Íslendingasögu. Sella hreifst af rímunum þegar hún las þær fyrir rúmum tveimur áratugum. Þótt hún hafi alist upp við lestur Íslendingasagnanna á bernskuheimili sínu var hún ekkert sérstaklega upprifin. Ekki þá. „Mér fannst sögurnar snúast mest um kónga og ártöl og of lítið fara fyrir konum og tilfinningum þeirra,“ útskýrir hún.

Síðan hefur býsna margt drifið á daga Sellu Páls, eins og leikskáldið og rithöfundurinn kallar sig. Hún hefur komið víða við í leik og starfi og átt ævintýralegt líf vægast sagt, lengst af í Bandaríkjunum. En höldum þræðinum sem lagt var upp með og grennslumst fyrst fyrir um tilurð sagnfræðilegu skáldsögunnar Girndarráð, sem hún gaf út á sjötugsafmæli sínu í október.

Ástarsagan heillaði

„Ég rakst á Skáldhelgasögu í einni útgáfu Íslendingasagnanna frá 1946 og komst að raun um að sú saga var skrifuð upp úr rímunum snemma á nítjándu öld. Ástarsagan heillaði mig. Mér fannst áhugavert hvernig hún speglaði hugarfar og afstöðu Íslendinga til siðferðis á 11. öld sem og ásatrúar, kristni og galdra. Mig langaði að semja leikrit byggt á sögu Skáld-Helga og ræddi hugmyndina við föðurbróður minn, Hermann Pálsson, sem þá var prófessor við Edinborgarháskóla. Hann ráðlagði mér að taka ekki mark á sögunni en lesa rímurnar því þær væru eina raunverulega heimildin – svo gæti ég bara skáldað í eyðurnar.“

Þetta var árið 1996. Sella grúskaði á bókasöfnum, sökkti sér niður í lestur og var byrjuð að semja leikritið þegar hún, þremur árum síðar, fluttist til Bandaríkjanna. Og ekki í fyrsta skiptið. Í þetta sinn bjó hún sér heimili í Salt Lake City í Utah og stofnaði netfyrirtækið SeniorShops.com.

„Ég sá mér leik á borði því mér fannst vanta vörur fyrir aldraða og hafði hugsað mér að skrifa samhliða rekstri fyrirtækisins. Það gekk ekki eftir því fyrirtækið blómstraði og tók allan minn tíma þar til netkrísan skall á í kjölfar hryðjuverkaárásanna í New York 2001.“

Leikritið Girndarráð var í biðstöðu þar til Sella fluttist alkomin til Íslands 2011, en þá hafði hún búið í Wyoming í nokkur ár, selt SeniorShops og einnig lokað veitingastaðnum sem hún stofnaði þar með syni sínum árið 2008. Samhliða öllum þessum umsvifum sótti hún ýmis námskeið í leikritagerð, kvikmyndahandritagerð og heimildarmyndagerð.

Spinnur kringum rímur

Eftir að hafa hreiðrað um sig í lítilli íbúð í vesturbæ Reykjavíkur aflaði hún sér frekari gagna í Girndarráð, sem með tilkomu netsins voru orðin mun aðgengilegri, og þjónaði skáldagyðjunni með margvíslegum hætti. Frá þeim tíma og til þessa dags hefur hún skrifað tvær ástar- og spennusögur á ensku, Pitching Diamonds, sem kom út 2012, og framhaldið Hiding Diamonds, sem væntanleg er innan tíðar. Þá skrifaði hún nokkur leikverk, t.d. Ráðabruggið sem Leikfélagið Snúður og Snælda setti upp og Erfðagóssið og Fyrirgefninguna, sem Leikhúslistakonurnar 50+ leiklásu.

„Ég afréð að skrifa Girndarráð sem skáldsögu fremur en leikrit. Þótt sagan fjalli um ást í meinum er hún frekar á skemmtilegum nótum en fræðilegum. Eins og í rímunum koma við sögu þekktir kappar í Íslendingasögunum, til dæmis Hermundur og Gunnlaugur ormstunga, nágrannar Skáld-Helga í Borgarfirðinum. Rímurnar eru grunnur sögunnar, ég aflaði mér upplýsinga um staðhætti sögusviðsins, allt frá Borgarfirði til Noregs, suður til Rómar og til Grænlands. Ég fylgi söguþræðinum en spinn í kringum hann, bæti við persónum og geri öðrum upp eiginleika eftir hentugleikum.“

Sálfræðingur í essinu sínu

Sella lauk BS-gráðu í sálfræði frá Utah-háskólanum 1989 og var að vonum í essinu sínu þegar hún stúderaði eiginleika söguhetjanna. Í rannsóknarvinnunni komst hún að því að ástsýki eins og elskendur sögunnar eru haldnar var á miðöldum talin sjúkdómur. Sögumaður í Skáldhelgarímum virðist einnig líta á ást Helga á Þorkötlu sem óviðráðanlegan sjúkdóm, sem Helgi fékk og þá með ástarpílu. Sella gerir því skóna að Þorkatla hafi verið afar sterkur persónuleiki, enda fór hún á eftir Helga yfir hafið. Helgi var mikill ævintýramaður, hirðskáld þeirra Eiríks jarls og Ólafs helga í Noregi, brokkgengur og með afbrigðum kvensamur. „Ég notfærði mér það auðvitað og læði inn bersöglum kynlífslýsingum,“ upplýsir Sella brosandi. Hins vegar vill hún ekki gefa upp hvort þau Þorkatla og Helgi hafi getað sætt lagi.

„Sagan mín spannar 35 ár, frá því Helgi er átján ára og Þorkatla fjórtán. Hún er dramatísk, átakanleg og spennandi á köflum. Kjarninn í henni er þrályndi elskenda, mótlæti í þjóðfélaginu, sem birtist í ríkjandi karlaveldi. Feður beggja voru höfðingjar og meinar faðir Þorkötlu henni að eiga samskipti við Helga, en hann ætlar honum aðra dóttur sína, Þórdísi. Bráðlyndi Helga reynir svo á þetta leynda ástarsamband í öll þessi ár.“

Lengra verður ekki komist með Sellu og hennar Girndarráð. Hún vill ekki ljóstra of miklu upp en lofar að endirinn komi á óvart. Áhugafólki um Skáldhelgarímur bendir hún á vefinn skaldhelgi.org, sem hún setti upp um leið og bókin kom út.

Merkilegir tímar

Víkur því talinu að henni sjálfri, æsku hennar, uppvexti og lífshlaupi – eins og tíðkast í góðum Íslendingasögum. Hverra manna er hún?

„Foreldrar mínir voru Páll S. Pálsson hæstaréttarlögmaður og Guðrún Stephensen kennari. Við erum átta systkinin og ólumst upp á Kvisthaganum og í Skerjafirði. Eftir verslunarskólapróf 1964 var ég í háskólanámi í Bandaríkjum í tvö ár, fyrst í Texas og síðar Louisiana,“ svarar Sella.

Á þeim tíma var nýbúið að samþykkja mannréttindalögin þar vestra en samt segir Sella að hvítir hafi ekki virt viðlits þá fáu blökkumenn sem voru nemendur í skólunum. „Við sátum saman, tvær hálfutanveltu, önnur útlendingur, hin svört. Kennararnir horfðu aldrei á sessunaut minn, sem þurfti að biðja mig um að spyrja þá spurninga.“

Að námi loknu kom Sella heim, vann sem ritari hjá föður sínum í Reykjavík í tvö ár, kynntist starfsmanni Bandaríska sendiráðsins, sem hún giftist og fluttist með til Indiana þar sem hún vann ýmis skrifstofustörf og einkasonurinn fæddist. Hún skildi við eiginmanninn í byrjun áttunda áratugarins, fluttist til New York, lærði innanhússhönnun og vann hjá japönskum arkitektum um þriggja ára skeið. Þáttaskil urðu í lífi hennar – þau hafa reyndar verið allnokkur – árið 1977 þegar hún stofnaði, ásamt tveimur öðrum, veitingastaðinn Palsson's á Vestur 72. götu á Manhattan. Tveimur árum síðar giftist hún eiginmanni númer tvö. Hann átti hús í Vermont og stofnuðu þau veitingastað í grenndinni og ráku í eitt ár. Því var töluvert um ferðalög hjá henni þar til þau hjónin skildu að borði og sæng 1981.

Í hringiðu skemmtanalífsins

Eigendur Palsson's færðu innan tíðar út kvíarnar, bættu við og innréttuðu aðra hæð í húsinu og átti Sella heiðurinn af hönnuninni. Þremenningarnir stofnuðu klúbb og í tengslum við hann kabarettleikhús. „Við settum upp sýningarnar Forbidden Broadway, sem byggðust á vinsælum söngleikjum sem sýndir voru á Broadway. Ég var framleiðandi sýninganna, sem hlutu fádæma viðtökur, barist var um miðana og fræga fólkið sem og aðrir streymdi að. Allt byrjaði þetta með því að við ákváðum að gefa handrits- og lagahöfundinum Gerard Alessandrini og vini hans tækifæri til að koma sér á framfæri. Svo mjög vatt framtakið upp á sig að við vorum alltaf með fullt hús, kabarettinn komst á forsíður Time og Newsweek, og fékk bæði Leiklistaráðsverðlaun og gagnrýnendaverðlaun.“

Orðsporið barst því víða. Ekki aðeins gengu sýningarnar fyrir fullu húsi í New York í fimm ár heldur framleiddi Sella þær með tilheyrandi umsýslu í Boston, Los Angeles, Washington DC og víðar þar sem þær gengu sums staðar í sex ár. Hún var því á ferð og flugi til ársins 1991. „Ég vissi að ég var alkóhólisti nokkru áður en ég fór að sækja AA-fundi og hætti að drekka árið 1985 og breytti lífi mínu að mörgu leyti. Í rauninni má ég þakka fyrir að hafa aldrei orðið háð kókaíni sem allt óð í og margir neyttu sem ég umgengst í tengslum við starfið. Ári síðar fluttist ég til Park City í Utah til að vera meira með syni mínum, sem bjó þar hjá stjúpföður sínum, seinni manni mínum. Sálfræðiprófinu lauk ég svo sama ár og ég seldi minn hlut í Palsson's 1989.“

Girndarráð á ensku

Enn breyttust aðstæður þegar sonurinn fluttist til Kaliforníu. Sella seldi húsið sitt, kom til Íslands og vann sem ráðgjafi og deildarstjóri hjá SÁÁ á árunum 1992 til 1995 og næstu fjögur árin til skiptis í Reykjavík og New York, annars vegar tvisvar í tengslum við Listahátíð í Reykjavík og hins vegar ýmis störf, þar á meðal hjá Famous Music-útgáfunni í New York. Ásamt því að safna heimildum fyrir Girndarráð og semja handrit og söngtexta fyrir söngleikinn Come Dance with Me sem hún fékk Egil Ólafsson til að semja tónlistina við. Söngleikurinn var frumsýndur í Chernugin-leikhúsinu í New York 1996.

Samtalið er komið þar sem það byrjaði – til ársins 1996. Ekki hefur allt verið tínt til sem Sella fékkst við fyrir þann tíma – eða eftir ef því er að skipta. Til dæmis gerði hún heimildarmynd um Sigurð Þorsteinsson skipstjóra sem sýnd var á RÚV 1994. Og laust eftir aldamótin var hún hluti af sex manna hópi leikskálda í Utah sem unnu úr eigin leikþáttum og stóðu fyrir leiklestrum og stuttum einþáttungum fyrir almenning.

Núna situr Sella í stjórn leikfélagsins Leikhúslistakonur 50+, sem setur upp leikverk og gjörninga. Hún er nýflutt. Einu sinni enn. Hún seldi litlu íbúðina sína í Vesturbænum, keypti stórt hús á Eyrarbakka og er þessa dagana að koma sér fyrir. Sella sinnir hugðarefnum sínum; ritstörfum, tíkinni sinni henni Lönu, stundar sund og jóga og hefur nóg fyrir stafni. Næst á dagskrá er að þýða Girndarráð yfir á ensku og undirbúa leiklestur á leikritinu Allt í plús á næsta ári með Leikhúslistakonum 50+.

Fjölskyldan. Páll með Sigþrúði í fanginu og Guðrún með Önnu …
Fjölskyldan. Páll með Sigþrúði í fanginu og Guðrún með Önnu Heiðu. F.v. eru Þórunn og Sella, sem heldur á Ívari. Fyrir aftan standa Páll Arnór, Signý og Stefán.
Sella og einkasonurinn Spencer Allen um jólin 1989.
Sella og einkasonurinn Spencer Allen um jólin 1989.
Skáldsaga Sellu, Girndarráð.
Skáldsaga Sellu, Girndarráð.
Sella skipulagði sýningu með Forbidden Broadway á Palsson’s þar sem …
Sella skipulagði sýningu með Forbidden Broadway á Palsson’s þar sem miðaverð rann til UNICEF. Leikkonan Liv Ullmann var kynnir.
Í Salt Lake City í Utah-ríki og stofnaði netfyrirtækið SeniorShops.com.
Í Salt Lake City í Utah-ríki og stofnaði netfyrirtækið SeniorShops.com.
Sella skipulagði sýningu með Forbidden Broadway á Palsson’s þar sem …
Sella skipulagði sýningu með Forbidden Broadway á Palsson’s þar sem miðaverð rann til UNICEF. Sýningin byggðist á vinsælum söngleikjum sem sýndir voru á Broadway.
Nýútskrifuð frá Verslunarskóla Íslands 1964.
Nýútskrifuð frá Verslunarskóla Íslands 1964.
Sella á sviðinu í Palssons’s Supper Club 1984.
Sella á sviðinu í Palssons’s Supper Club 1984.
Sella ásamt fyrri eiginmanni sínum 1968.
Sella ásamt fyrri eiginmanni sínum 1968.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert