Tíu milljarðar vegna auðlegðarskatts

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Ófeigur

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að það hafi ekki verið tillaga flokksins að hækka tekjuskatt. Flestir af hinum flokkunum fjórum sem ræddu saman um myndun ríkisstjórnar hafi verið á sama máli. 

„Við vorum það ekki fyrir kosningar og heldur ekki eftir kosningar. Ég ætla ekki inn í smáatriði í tengslum við viðræðurnar en mér fannst þessi möguleiki koma til greina, hvorki af hálfu okkar né flestra annarra,“ segir Katrín.

Aðspurð segir hún að það hafi aftur á móti verið hugmynd Vinstri grænna að setja á auðlegðarskatt í nýrri mynd. „Við töluðum líka um það fyrir kosningar, þar sem við myndum undanskilja heimili fólks. Þetta væri skattstofn sem væri miðað við að tæki til þeirra sem eiga mjög mikið fjármagn.“

Flokkurinn reiknaði það út að auðlegðarskatturinn gæti skilað um tíu milljörðum króna í ríkissjóð.

Katrín Jakobsdóttir, Logi Már Einarsson, Benedikt Jóhannesson, Óttarr Proppé og …
Katrín Jakobsdóttir, Logi Már Einarsson, Benedikt Jóhannesson, Óttarr Proppé og Birgitta Jónsdóttir á fundi í gær. mbl.is/Árni Sæberg

„Allar okkar hugmyndir miðuðust að því að þær legðust frekar á efnameira fólk. Það var meginþemað í okkar hugmyndum til tekjuöflunar og kemur engum á óvart því það er okkar stefna. Hugsunin var sú að samhliða vonandi almennum efnahagsbata og ýmsum öðrum aðgerðum væri hægt að fjármagna útgjöld upp á 50 milljarða á næstu árum,“ greinir Katrín frá.

Hún nefnir einnig að sykurskattur, sem Vinstri grænir lögðu til að yrði settur á, gæti skilað um tveimur milljörðum króna í ríkissjóð. Um sé að ræða lýðheilsumál sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi mælt með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert