„Dómadagsvitleysa“ að kjósa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Það var „dómadagsvitleysa“ að ganga til kosninga í haust, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra. Hann segir yfirvofandi sölu eigna í eigu ríkisins ekki bara efnahagslega spurningu, heldur spurningu um völd. Margir muni vilja koma þar að.

Þetta kom fram í viðtali við Sigmund í Reykjavík síðdegis.

Forsætisráðherrann fyrrverandi sagði stöðuna í stjórnarmyndunarviðræðum flókna.

„Ég held að það sé orðið ljóst núna hvers konar dómadagsvitleysa það var að halda þessar kosningar í lok október og reyndar held ég að flestum hafi mátt vera það ljóst frá því í sumar að minnsta kosti,“ sagði hann.

„En það mátti einhverra hluta ekki nefna það; það var ekki vel séð. Sumir kannski sáu í þessu tækifæri fyrir sjálfa sig en aðrir voru held ég hræddir við að styggja einhverja æsingamenn. Og það er ekki gott ef stjórnmál eru farin að stjórnast af ótta við einhverja æsingamenn, en það er svolítið tilfellið á Íslandi núna held ég og reyndar víðar. Og þá lenda menn í stöðu eins og þessari.“

Sigmundur sagði ekki skipta öllu í stöðunni hver færi með stjórnarmyndunarumboðið, þar sem allir hefðu rætt við alla og allir vissu hvar allir stæðu. Sagðist hann hallast að því að vænlegasta lausnin væri að efna til kosninga í vor og sammælast um bráðabirgðaráðstafanir í millitíðinni.

Spurður að því hvor hann væri kominn til að vera á hinum pólitíska sviði, svaraði Sigmundur því til að hann hefði áður sagt að hann hygðist taka þátt í pólitík á meðan hann teldi sig geta gert gagn og á meðan þar biðu stór, ókláruð mál.

„Og núna stöndum við frammi fyrir alveg gríaðarlega stórum og mikilvægum ókláruðum málum,“ sagið hann. „Næsta ríkisstjórn mun þurfa að takast á við endurskipulagningu fjármálakerfisins og einkavæðingu eða sölu á gríðarlega miklum eignum. Og þeim eignum fylgja gífurleg völd.“

Sigmundur sagði bæði um að ræða bankana og stór eignasöfn, og margir vildu „koma þar að.“ Hann sagði ráðamenn þurfa að standast „gífurlegan þrýsting“ og láta ekki stjórnast af „einhverjum flokksheilindum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert