Saksókn ólíkleg í erfðamálum

Lúxemborg er á meðal þeirra lágskattasvæða þar sem Íslendingar eiga …
Lúxemborg er á meðal þeirra lágskattasvæða þar sem Íslendingar eiga fjármuni. mbl.is/Ómar

Afar ólíklegt er að farið yrði af stað með sakamál og refsimeðferð gegn erfingjum ef þeir gerðu grein fyrir fjármunum erlendis sem hefðu komið í þeirra hlut, en ekki hafi verið greiddur af skattur áður fyrr, svo framarlega að ljóst sé að hvorki hafi verið til að dreifa ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi um að leyna upplýsingum og skattlagningu. Þetta segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri í samtali við mbl.is.

Í gær fjallaði mbl.is um skattagrið, en Vala Val­týs­dótt­ir, lögmaður hjá Lög­fræðistofu Reykja­vík­ur, skrifaði grein í Morgunblaðið um málefnið og sagði að dæmi væru um að við dánarbússkipti hafi fundist hundruð milljóna á reikningi í Lúxemborg eftir áratuga umboðslaunagreiðslur sem aldrei hafi verið gerð grein fyrir við skattinn.

Frétt mbl.is: Erfingjar vilja koma hreint fram en óttast saksókn

Skúli segir að ákvörðun um hvort lagabreytingar af þessu tagi verði lögfestar séu fyrst og fremst pólitísks eðlis. Kostirnir við að fara þessa leið og reynsla sé af til dæmis frá Svíþjóð, sé að þetta skili sér í auknum tekjum fyrir ríki og sveitarfélög.

Skilað 20 milljörðum í Svíþjóð

Í riti ríkisskattstjóra frá því í nóvember 2014 kemur meðal annars fram að í Svíþjóð hafi löggjöf um skattgrið skilað sér þannig að 5.400 einstaklingar hafi stigið fram af eigin frumkvæði og gert grein fyrir eignum sínum erlendis. Þetta hafi skilað sér í um 20 milljarða í auknum skatttekjum til ríkisins.

En hvað þýða skattgrið nákvæmlega? Skúli segir að slíkar aðgerðir snúist um að einstaklingar sem séu erlendis með fjármuni fái heimild til þess að koma með leiðréttingar á skattaframtali sínu í einhvern tiltekinn tíma gegn því að fá einhvers konar grið sem felist í refsileysi en beitt yrði álagi á vanframtalda skattstofna.

Fjölmargar spurningar vakna um skattagrið  

Ef veita á heimild sem þessa vakna þó upp fjölmargar spurningar. Í fyrsta lagi hvort rétt sé að gefa mönnum upp sakir og hvort með því séu sett fordæmi. Þá segir Skúli að alls konar álitamál geti komið upp varðandi hvernig eigi að skattleggja viðkomandi fjármuni. Þannig geti verið um að ræða fjármuni sem upphaflega hafi til dæmis verið umboðslaun eða vanframtaldar rekstrartekjur. Í slíkum tilfellum sé beint um að ræða tekjuskatt. Í öðrum tilfellum gæti verið horft til þess að greiða eignaskatt.

Málið sé heldur ekki klippt og skorið varðandi að allir fjármunir sem finnist erlendis séu óskattaðir. Segir Skúli að vel geti verið að fjármunirnir hafi verið gefnir upp til skatts áður fyrr, en það geti reynst erfitt fyrir erfingja að vita það fyrir víst.

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri.
Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri. Eggert Jóhannesson

Var reynt á Íslandi árið 1964

Skiptar skoðanir eru að sögn Skúla um hvort og hvernig haga skuli svona málum, en þau hafi reglulega komið til umfjöllunar án þess að neitt hafi verið neglt niður varðandi þau. Hann bendir þó á að einu sinni áður í sögunni hafi slík heimild verið veitt hér á landi. Það var árið 1964, en þá var verið að stofna rannsóknardeild ríkisskattstjóra og segir Skúli að mönnum hafi verið gert kleift að gera upp sín mál. Lítill árangur hafi þó verið í það skiptið, en Skúli segir að rekja megi það að einhverju leyti til þess að heimildin hafi lítið verið auglýst.

Í grein Völu í gær var meðal annars komið inn á að erfingjar óttuðust að þeir gætu átt yfir höfði sér saksókn ef þeir gerðu grein fyrir fjármunum sem þessum sem þeim hlotnuðust. Skúli segist aftur á móti ekki sjá það fyrir sér. Þannig séu sjaldnast fyrir hendi huglæg skilyrði fyrir því að gera fólki refsingu í slíkum málum. Ef fólk hafi ekki vitað af fjármunum sé hvorki ásetningi né stórkostlegu hirðuleysi um að kenna.

Í dag er refsileið þríþætt fyrir þá sem teknir eru fyrir skattsvik. Þeim getur verið gert að sæta fésekt hjá skattrannsóknarstjóra eða hjá yfirskattanefnd eða að farin sé dómsleið og þá átt á hættu að sæta refsingu í formi sektar og refsivistar.

Lágmarkssekt tvöföld skattsvik

Skúli segir að í dag sé lágmarksrefsing fyrir skattsvik sekt sem nemi tvöföldum undandregnum skatti að teknu tilliti til álags sem hefur verið greitt áður. Í fyrrnefndu riti ríkisskattstjóra er vísað í skýrslu OECD um sjálfviljug málalok í skattamálum og borin saman mismunandi lagaákvæði milli landa þar sem þessi leið hefur verið farin.

Í Noregi er málum háttað þannig að hægt er að fella niður sektir hafi skattaðili sjálfur frumkvæði af því að koma með upplýsingar. Greiðir hann skatt af upphæðinni sem um ræðir og vexti, allt að tíu ár aftur í tímann. Í Danmörku var tímabundin heimild gefin á árinu 2013 og var þá hægt að fá 60% afslátt af sekt vegna vantalinna tekna. Í Svíþjóð er svipað upp á teningnum og í Noregi, en stígi menn sjálfir fram er hægt að fella niður sektir og refsimeðferð, en greiða þarf vangoldna skatta og vexti af þeirri upphæð.

Í Bretlandi var farið í aðgerðir sem þessar með sérstaka áherslu á fjármuni á lágskattasvæðum. Þar var skattgreiðandanum gert að greiða vangoldinn skatt og vexti auk sektar sem nemur 10% af vangoldnum skatti.

„Stóru spurningarnar eru hvort eigi að gera þetta og ef farið er að huga að lagabreytingum af þessu tagi þá sé óljóst hvaða viðmið eigi að nota við beitingu álags,“ segir Skúli og bætir við að lokum að það sé þó alltaf pólitísk ákvörðun hvort og þá hvaða leið sé farin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert