Milljónir í spítalann vegna hælisleitenda

Landspítalinn fær hundrað milljónir til viðbótar samkvæmt fjáraukalögum.
Landspítalinn fær hundrað milljónir til viðbótar samkvæmt fjáraukalögum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hundrað milljónum króna verður veitt aukalega til Landspítalans, samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt var fyrir Alþingi í dag.

Í frumvarpinu segir að fjárveitingunni sé ætlað að koma til móts við aukið álag, meðal annars vegna fjölda hælisleitenda og erlendra ferðamanna.

„Þannig hefur fjöldi hælisleitenda slegið öll fyrri met á yfirstandandi ári og kostnaður spítalans vegna þeirra einstaklinga sem leitað hafa til hans hefur aukist að sama skapi,“ segir í frumvarpinu.

Áður hefur mbl.is greint frá því að Land­spít­al­inn fær 3,9 millj­örðum króna meira í fram­lög á næsta ári, miðað við yf­ir­stand­andi ár, sam­kvæmt fjár­laga­frum­varp­inu sem lagt var fyrir Alþingi fyrr í mánuðinum.

Frétt mbl.is: Landspítalinn fær tæplega 4 milljörðum meira

Samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum verða heildarframlög til spítalans því tæplega 59,4 millj­arðar króna sam­kvæmt frum­varp­inu.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli

Líkti frumvarpinu við hamfarir

Páll Matth­ías­son, for­stjóri Land­spít­al­ans, hefur sagt í samtali við mbl.is að fjár­laga­frum­varpið fyr­ir næsta ár sé gíf­ur­leg von­brigði og að í raun­inni felist í því al­gjör­ar ham­far­ir.

Sagði hann að um þrír millj­arðar af þess­um tæp­lega fjór­um fari í launa­hækk­an­ir og verðlags­upp­bæt­ur.

„Það eru samt að koma 800 millj­ón­ir inn en á móti kem­ur að sú þörf sem við höf­um rætt um er allt að 12 millj­arðar króna, ef fjár­magna ætti rekst­ur, innviði, mennt­un og mannauð og vís­indi á full­nægj­andi hátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert