Skoða nýtingu erfðaupplýsinga

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp sem leggja á fram tillögur um nýtingu erfðaupplýsinga í einstaklingsmiðuðum forvörnum. Hópurinn skal leggja sérstaka áherslu á miðlun upplýsinga um stökkbreytingar í BRCA-genum, sem auka verulega áhættu á brjóstakrabbameini.

Þetta kemur fram í frétt á vef velferðarráðuneytisins.

Í skipunarbréfi starfshópsins segir að mikilvægt sé að heilbrigðisyfirvöld móti stefnu á þessu sviði þar sem fram komi hvernig réttast sé að nýta erfðaupplýsingar í einstaklingsmiðuðum forvörnum, bæði út frá siðferðislegum og læknisfræðilegum sjónarmiðum. Þess sé vænst að vinna starfshópsins gefi heilbrigðisyfirvöldum góðan grunn til að standa á þegar hafist verði handa við skynsamlega nýtingu upplýsinga úr gagnagrunnum hér á landi í forvarnarskyni.

Formaður starfshópsins er Sigurður Guðmundsson en í honum sitja að auki: Hörður Helgi Helgason, Jón Jóhannes Jónsson, Kári Stefánsson, Laufey Tryggvadóttir, Rósa Dögg Flosadóttir, Sigríður Haraldsdóttir, Unnur Anna Valdimarsdóttir og Þórunn Oddný Stefánsdóttir.

Hópurinn á að skila tillögum til heilbrigðisráðherra fyrir 1. nóvember 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert