Þyngdu dóm vegna brota gegn 15 ára

Hæstiréttur hefur þyngt dóm yfir manni sem fundinn var sekur um að hafa látist vera 17 ára drengur, viðhaft kynferðislegt tal við 15 ára pilt og fengið hann til að senda sér mynd af kynfærum sínum.

Þá var maðurinn dæmdur fyrir tilraun til nauðgunar, með því að reyna að þvinga piltinn til kynmaka við sig með því að hóta að dreifa samskiptum þeirra.

Héraðsdómur dæmdi Anton Yngva Sigmundsson í fimmtán mánaða fangelsi, en ákvað að fullnustu tólf mánaða skyldi frestað og látin falla niður að þremur árum ef Anton héldi skilorð.

Hæstiréttur ákvað hins vegar að Anton skyldi sæta tveggja ára fangelsi. Í dómsorðinu segir að brot hans hafi verið sérlega gróf og að hann eigi sér ekki málsbætur. Þótti ekki efni til að binda refsinguna skilorði að öllu eða nokkru.

Tveir hæstaréttardómarar, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson, skiluðu inn sératkvæði og vildu sýkna af seinni hluta ákærunnar, þ.e. tilraun til nauðgunar, þar sem þeim þótti ákærði ekki hafa sýnt ásetning í verki í skilningi hegningarlaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert