2% orðið fyrir kynferðisbroti

Aðeins 7% þeirra sem urðu fyrir kynferðibrotum árið 2015 tilkynntu …
Aðeins 7% þeirra sem urðu fyrir kynferðibrotum árið 2015 tilkynntu um þau til lögreglunnar. mbl.is/Þórður

Einn af hverjum þremur höfuðborgarbúum varð fyrir afbroti á síðasta ári. Hlutfallslega flestir urðu fyrir eignaskemmdum en um tvö prósent borgarbúa varð fyrir kynferðisbrotum og svipað hlutfall fyrir ofbeldisbrotum á árinu. Þá greindu tæplega fjögur prósent frá heimilisofbeldi.

Í skýrslu um niðurstöður árlegrar viðhorfskönnunar sem gerð var fyrir ríkislögreglustjóra og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að hlutfall þeirra sem segjast hafa orðið fyrir afbrotum sé svipað og undanfarin ár. Marktækur munur var á hlutfalli karla sem greindu frá því að þeir hefðu orðið fyrir afbroti en kvenna, 37% á móti 32%.

Yngra fólk var líklegra til að hafa orðið fyrir barðinu á afbrotum, 44% fólks á aldrinum 18-25 ára og 43% þeirra sem voru 26-35 ára en 26% fólks 56-65 ára og 21% fólks á aldrinum 66-76 ára. Ekki var marktækur munur eftir búsetu.

Af þeim sem urðu fyrir afbrotum höfðu 23% orðið fyrir eignaskemmdum og tæpleg einn af hverjum tíu hafði orðið fyrir þjófnaði. Um 8,5% lenti í innbroti á heimili, dvalarstað, ökutæki eða öðru lokuðu rými.

7% tilkynntu um kynferðisbrot til lögreglu

Þegar kom að kynferðisbrotum voru öll fórnarlömbin 35 ára eða yngri, hlutfallslega flestir á aldrinum 18-25 ára. Þolendur ofbeldisbrota voru einnig hlutfallslega flestir úr þeim aldurshópi.

Um helmingur þeirra sem varð fyrir kynferðisbrot sagði brotið mjög eða nokkuð alvarlegt. Þá lýstu 46% brotinu sem grófri kynferðislegri áreitni en 38% sem særandi framkomu. Um tólf prósent lýstu broti sem tilraun til nauðgunar og þrjú prósent lýstu því sem nauðgun.

Aðeins sjö prósent þeirra sem sögðust hafa orðið fyrir kynferðisbroti í fyrra tilkynntu um það til lögreglunnar.

Af þeim sem sögðust hafa orðið fyrir andlegu eða líkamlegu ofbeldi af hendi maka eða fyrrum maka tilkynntu níu prósent um það til lögreglu. Algengast var að þolendur hefðu orðið fyrir andlegu ofbeldi og flestir sögðu að það fælist í að endurtekið væri gert lítið úr þeim.

Næstflestir merktu við að maki eða fyrrum maki hefði komið í veg fyrir að þeir hittu vini eða ættingja og jafnmargir sögðust hafa orðið fyrir ofbeldi. Um fimmtungur sagðist hafa verið ógnað eða hóta ofbeldi, lífláti eða að barn eða börn yrðu tekin af þeim.

Tæplega 40% sögðust enn búa við þessar aðstæður. Algengast var að ofbeldið hefði átt sér stað í eitt til þrjú skipti, eða um 38%. Tveir af hverjum fimm sögðust hins vegar búa við vikulegt ofbeldi.

Minnihluti brotanna alvarlegur

Um fjögur prósent höfuðborgarbúa sögðust hafa orðið fyrir svikum á netinu þar sem þeir hefðu tapað fé eða fengið svikna vöru í viðskiptum um netið. Fleiri karlar en konur höfðu lent í því og yngra fólk frekar en eldra.

Mikill meirihluti þeirra sem höfðu orðið fyrir auðgunarbrotum eða eignaspjöllum á síðasta ári lýstu þeim sem ekki mjög alvarlegum. Rúmlega fjórðungur þeirra sem urðu fyrir eignaspjöllum töldu brotið nokkuð eða mjög alvarlegt og um fimmtungur þeirra sem höfðu orðið fyrir svikum á netinu.

Rúmlega þriðjungur þeirra sem lentu í innbrotum eða þjófnaði töldu brotið mjög eða nokkuð alvarlegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert