Eykur álag á heilsugæslu og bráðamóttöku

Mynd úr safni. 70% af öllum þeim sjúklingum sem koma …
Mynd úr safni. 70% af öllum þeim sjúklingum sem koma til barnalækna í Domus Medica eru yngri en tveggja ára og er sérfræðiþekking nauðsynleg til að sjúkdómsgreina börn rétt á þessum aldri. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Komum barna á heilsugæslustöðvar mun fjölga um 109.000 á næsta ári, þegar ný reglugerð tekur gildi 1. febrúar. Reglugerðin kveður á um að heimilislæknar eigi að sjá um að vísa börnum áfram til barnalækna. Gjaldið fyrir þá foreldra sem sniðganga heilsugæsluna og leita milliliðalaust eftir þjónustu barnalæknis rúmlega fimmfaldast þegar reglugerðin tekur gildi.

Kostnaður foreldra við heimsókn til barnalæknis í dag nemur 890 kr. en verður eftir 1. febrúar á bilinu 5.400-8.000 kr., sem er 2/3 hlutar kostnaðarins, komi þeir ekki þangað fyrir milligöngu heimilislæknis eða heilsugæslustöðvar, en sé svo greiða sjúkratryggingar heimsóknina að fullu. Hámarksgreiðsluþátttaka foreldra vegna barns er þó 46.467 kr. á ári og 32.800 vegna barns með fullann afslátt.

Yngstu börnin þurfa mestu sérfræðiþekkinguna

Ólafur Þorvaldsson, barnalæknir í Domus medica, segir reglugerðina vanhugsaða og líklega til að valda miklum vanda, ekki hvað síst á bráðamóttöku Landspítalans sem muni fá stóran hóp barnanna til sín.

„Með því að gera tilvísanakerfi er verið að fjölga komum barna á heilsugæsluna um 109.000, en hún á nú þegar í vanda með að sinna sínum skjólstæðingum,“ segir Ólafur og bendir á að 47.000 af þessum komum séu til barnalækna og þar af séu komur til barnalækna í Domus Medica um 30.000.  

Kostnaður ríkisins vegna reglugerðarinnar verði aukinheldur meiri, þar sem komur á heilsugæslustöðvar og sjúkrahús séu ríkinu dýrari en koman til barnalæknis.

„70% af öllum þeim sjúklingum sem koma til barnalækna í Domus Medica eru yngri en tveggja ára,“ að sögn Ólafs sem kveður töluverða sérfræðiþekkingu nauðsynlega til að greina rétt börn á þessum aldri, þar sem þau séu ófær um að lýsa sjúkdómseinkennum sínum. „Stærsti hópurinn sem er verið að gera erfitt með að fá læknisþjónustu eru yngstu börnin, sem þarf mesta kunnáttu til að sinna.“

Fjölmargar erlendar rannsóknir sýna að barnalæknar séu betur til þess fallnir að sinna  bráðveikum börn en heimilislæknar, og heimilislæknar eru að sögn Ólafs, flestir sammála þessu, þó að sumir þeirra búi vissulega yfir reynslu til að sinna veikum börnum.

Gerir heilbrigðiskerfið tvískipt

Ólafur bendir á að heilsugæslan geti ekki tekið á móti öllum þessum viðbótarkomum og því sé með tilvísunarkerfinu, verið að ýta komunum yfir á sjúkrahúsin, sem eru dýrasti hluta heilbrigðiskerfisins.

„Þetta leiðir til þess að heilbrigðiskerfið verður tvískipt. Hinir efnameiri halda áfram að leita beint til barnalækna í stað þess að bíða í 2-3 daga eftir að fá úthlutað tíma, en hinir efnaminni gera það ekki,“ segir hann og bætir við að tvískipt heilbrigðiskerfi sé á dagskrá hjá fæstum þeim sem sitja á þingi.

„Þetta er röng aðferð til að reyna að bæta þjónustustig heilsugæslunnar,“ segir Ólafur. Reglugerðin veki enda litla hrifningu hjá heimilislæknum, barnalæknum, Sjúkratryggingum eða starfsfólki bráðamóttöku.

Eykur álagið á bráðamóttöku

„Reglugerðin er sett upp þannig að læknisþjónusta eigi að vera ókeypis fyrir börn sem við barnalæknar eru hjartanlega sammála, en valkosturinn er bara ekki  fyrir hendi,“ segir hann. Staðan breytist ekki þannig að það verði allt í einu fleiri tímar í boði á heilsugæslunni 1. febrúar og foreldrar með veik börn séu í fæstum tilfellum tilbúin að bíða lengi eftir læknisaðstoð fyrir börn sín.

„Það er verið að reyna að þvinga í gegn breytingu á heilsugæslunni sem hún er ekki tilbúin að takast á við og það eina sem gerist því er að álagið flyst yfir á Landspítalann.“

Ólafur segir starfsfólk bráðamóttöku hafa verulegar áhyggjur af því aukna álagi sem þetta muni valda á deildinni. „Þetta á eftir að skapa aðstæður sem verða hættulegar,“ segir hann. Aukinheldur muni þetta aukna álag draga úr möguleikum bráðamóttökunnar á að sinna langveikum börnum sem eru þar tíðir gestir og þurfa raunverulega á þjónustu bráðamóttökunnar að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert