Fjárlögin sögð ógna hlutverki Landspítalans

Læknaráð telur fjárframlög til Landspítalans á næsta ári ekki í …
Læknaráð telur fjárframlög til Landspítalans á næsta ári ekki í takt við fjölgun sjúklinga. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Læknaráð Landspítala lýsir yfir þungum áhyggjum af ófullnægjandi ríkisframlagi til Landspítalans í frumvarpi til fjárlaga 2017 og telur það geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir starfsemi og faglega stöðu heilbrigðisþjónustu í landinu.  

Í fjárlögum næsta árs sé aðeins gert ráð fyrir 690 milljón króna hækkun á rekstrarframlagi til spítalans og sé frumvarpið í fullkominni andstöðu við fyrri yfirlýsingar ráðherra um að íslenska heilbrigðiskerfinu verði búin sambærilegur rammi og á hinum Norðurlöndunum.

Í yfirlýsingu frá stjórn læknaráðs kemur fram að Alþingi verði að bregðast við. Alþingi beri fulla ábyrgð á þeirri þjónustu sem hægt er að veita á Landspítalanum og sú þjónusta mótist af fjárframlögum til starfseminnar.

Vakinn er athygli á að útgjaldarammi spítalans sé ekki í takt við fjölgun landsmanna og breyttan aldur þjóðarinnar, né heldur við aukningu ferðmanna.

„Útgjaldarammi Landspítalans í fjárlagafrumvarpinu er ekki í takt við þessa þróun og er ófullnægjandi fyrir komandi ár. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 er aðeins gert ráð fyrir 690 m.kr. nettó hækkun rekstrarframlags til spítalans, að teknu tilliti til hagræðingarkröfu og launa- og verðlagsbóta. Af þessum 690 m.kr. eru 210 m.kr. ætluð í ný verkefni. Einnig eru lagðar 510 m.kr. í kaup á nýjum línuhraðli til meðferðar á krabbameini.“

Sé framlag til reksturs spítalans fyrir næsta ár skoðað á föstu verðlagi, komi í ljós að það sé sambærilegt framlaginu árið 2005, en 2,8 milljörðum króna lægri en 2008.

„Þetta telur læknaráð Landspítala óásættanlegt og ógn við það hlutverk sem sjúkrahúsinu er ætlað að gegna. Uppsöfnuð viðbótarfjárþörf Landspítalans 2017 er metin tæpir 12 milljarðar króna miðað við fjárlög 2016 og alls 66 milljarðar króna á næstu 5 árum. Án slíkrar innspýtingar í rekstur spítalans er hætta á ófullnægjandi framþróun í heilbrigðisþjónustu í landinu, auk þess sem núverandi frumvarp kallar á samdrátt og skerðingu þjónustunnar, er ógn við öryggi sjúklinga og heilbrigðiskerfi landsmanna til lengri og skemmri tíma.“

Segir í yfirlýsingunni að stjórn læknaráðs Landspítala telji núverandi frumvarp til fjárlaga 2017 vera í fullkominni andstöðu við þá yfirlýsingu sem forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra undirrituð í tengslum við gerð kjarasamnings lækna í janúar í fyrra sem kvað á um að íslenska heilbrigðiskerfið „ búi við sambærilegan ramma hvað varðar fjármuni og fjölda starfsmanna og önnur Norðurlönd“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert