Ósætti með uppsögn framkvæmdastjórans

Skátastarf á Úlfljótsvatni. Mynd úr safni. Óánægja er innan skátahreyfingarinnar …
Skátastarf á Úlfljótsvatni. Mynd úr safni. Óánægja er innan skátahreyfingarinnar með loðin svör stjórnar varðandi uppsögn framkvæmdastjórans.

Mikil óánægja er innan skátahreyfingarinnar með uppsögn Hermanns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Bandalags íslenskra skáta. Tilkynning barst frá frá skátamiðstöðinni í tölvupósti fyrr í vikunni um að stjórnin og Hermann hafi komist að samkomulagi um að hann láti af störfum.

„Þetta var allt mjög loðið og skrýtið og samfélagsmiðlar fóru strax að loga. Menn krefjast þess að fá að vita hvers vegna verið sé að hrekja framkvæmdastjórann á brott,“ segir Guðmundur Pálsson, formaður fræðaseturs skáta í samtali við mbl.is. Hann tjáði sig um uppsögnina á Facebook, þar sem hann hvatti skátaforingjann og formann stjórnar Bandalags íslenskra skáta, Braga Björnsson til að segja af sér.

Var vinsæll og vel metinn

Guðmundur, sem hefur starfað með skátunum sl. 40 ár, segir að soðið hafi upp úr hjá skátahreyfingunni. Hermanni, sem hafi verið gríðarlega vinsæll og vel metinn maður, séu gefin að sök afglöp í starfi sem ekki eigi við rök að styðjast. „Það er bara tilbúningur til að koma honum frá. Þeir hafa ekki átt samleið hann og Bragi skátahöfðinginn okkar, sem er búin að vera þarna alltof lengi.“

Mikil óánægja sé með málið um allt land, en enginn hafi þorað af taka af skarið. „Þannig að ég ákvað að gera það með Facebook-færslu minni,“ sagði Guðmundur.

Trúnaðarbrestur milli stjórnar og framkvæmdastjóra

„Það er löngu orðið tímabært að menn þori að tjá skoðanir sínar og því ríð ég nú að vaðið með það í þeirri von að forysta hreyfingarinnar verði rýnd til gagns á hreinskilinn hátt, án upphrópanna,“ sagði í Facebook-færslunni sem sett var inn í morgun og Guðmundur hefur fengið gríðarleg viðbrögð við.

Bragi Björnsson sagði í samtali við mbl.is að sér þætti afar leitt að fólk sem þekki ekki til málsins sé að búa til úlfalda úr mýflugu. „Staðreyndin er bara sú að meirihluti stjórnar tók þá ákvörðun að það væri rétt að ganga til samninga við Hermann um starfslok,“ segir hann og kveður trúnaðarbrest hafa komið upp milli framkvæmdastjórans og meirihluta stjórnar.

Sagt eiga rætur sínar í eineltismáli

Guðmundur segir málið m.a. eiga rætur að rekja til eineltismáls innan skátahreyfingarinnar vegna einstaklings sem tengist Braga fjölskylduböndum. „Hermann kom því máli í faglegan farveg hjá Æskulýðsvettvanginum, sem eru samtök félaga sem vinna að æskulýðsmálum. Þeirri rannsókn lauk með úrskurði um að viðkomandi einstaklingur ætti ekki að starfa með börnum og unglingum.

Þetta var erfitt mál fyrir Braga sem hefði þá átt að stíga til hliðar, en gerði það ekki,“ segir Guðmundur. „Það situr í mönnum, sem og að hvað sem á dynur þá komi aldrei til greina að hann axli neina ábyrgð.“

Bragi hafnar því alfarið að tengsl sé milli uppsagnar Hermanns nú og eineltismálsins. „Þetta eru tvö algjörlega aðskilin mál,“ segir hann. „Það mál er í ferli innan hreyfingarinnar og það er ekki komin niðurstaða í það mál. Sú stjórn sem ákveður að semja við Hermann um starfslok er sama stjórn og hefur haft eineltismálið til meðferðar að mér undanskildum, þar sem ég er vanhæfur í því máli vegna persónulegra tengsla og hef því enga aðkomu að því.“

Það sé hins vegar rangt sem einhverjir virðist telja að það sé á sínu valdi að semja við framkvæmdastjóra um starfslok. „Það er ekki á mínu valdi, heldur er það stjórnarinnar.“

Ósáttir við skort á skýringum

Guðmundur segir menn innan skátahreyfingarinnar vera ósátta við að engar útskýringar hafi verið gefnar á uppsögninni. „Það koma engin svör og þá skapast þetta hættulega ástand að menn byrja að geta í eyðurnar. Ég er ekkert að halda því fram að eineltismál sé eina ástæða uppsagnarinnar, en mér heyrist á samtölum mínum við fólk að það hafi verið dropinn sem fyllti mælinn.

Það er gríðarlega vont fyrir okkur sem 100 ára gamlan félagsskap sem starfar með börnum að hafa í forystunni fólk sem að er hugsanlega uppvíst að einhverju misvísu hvað þetta varðar og því viljum við ekki una,“ sagði Guðmundur og kvað menn stundum verða að láta af embætti þó þeir séu ósammála ástæðunum.

Mbl.is hafði samband við Hermann Sigurðsson við vinnslu fréttarinnar, sem kaus að tjá sig ekki um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert