Bikar Pelé frá KSÍ til sölu

Pele með íslenskum börnum í heimsókn sinni til Íslands árið …
Pele með íslenskum börnum í heimsókn sinni til Íslands árið 1991.

Bikar sem Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, færði brasilísku knattspyrnugoðsögninni Pelé í ágúst 1991, í tilefni fyrstu heimsóknar hans til landsins, er til sölu á uppboðsvefnum Ebay.

Fyrr á þessu ári seldi Pelé ýmsa muni tengda knattspyrnuferli sínum í gegnum Julien’s-uppboðshúsið í London, verðlaunapeninga, bikara og fleira og þar á meðal þennan bikar sem er nú kominn í endursölu.

Gripinn seldi Pelé á uppboði í júlí á þessu ári.
Gripinn seldi Pelé á uppboði í júlí á þessu ári.

Heimsókn Pelé hingað til lands vakti mikla athygli og varð öngþveiti í kringum „Svörtu perluna“, eins og hann er jafnan kallaður, hvert sem hann fór og þegar hann gisti á Hótel KEA á Akureyri og það uppgötvaðist að hann hafði skilið náttfötin eftir varð uppi fótur og fit því fólk sá fyrir sér að það yrði að geyma þau því þau gætu verið boðin upp síðar meir.

Ekki fer frekari sögum af þeim náttfötum en bikarinn frá KSÍ er í það minnsta falur á Ebay fyrir um 353.000 íslenskar krónur.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert