Hryllingur mætir börnum á Netflix

Myndin í efra vinstra horninu gefur til kynna að um …
Myndin í efra vinstra horninu gefur til kynna að um sé að ræða barnamyndina frá 1987. Til hægri sést hins vegar leikarinn Jeremy Renner, einn aðalleikara nýju myndarinnar, sem ekki er ætluð börnum. Skjáskot/Netflix

Áskrifendur efnisveitunnar Netflix gætu þurft að halda börnum sínum frá því að horfa á myndina um Hans og Grétu, sem þar er að finna. Svo virðist sem einhvers konar mistök hafi átt sér stað, þar sem hryllingsmynd frá árinu 2013 er þar rangmerkt sem fjölskyldumynd frá árinu 1987.

Leifur Gunnarsson bassaleikari greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni, en hann hugðist í gærkvöldi horfa á skemmtilega kvikmynd með syni sínum sem er á fimmta aldursári.

„Móðirin fór í saumaklúbb svo við feðgar ætluðum að hafa það reglulega notalegt fyrir framan sjónvarpið, og fyrir valinu verður þessi mynd um Hans og Grétu,“ segir Leifur í samtali við mbl.is.

„Málið er að myndin í yfirlitinu tilheyrir barnamyndinni, en svo tekur á móti okkur mynd sem flokkuð er á IMDB sem hrollvekja.“

Annars vegar er um að ræða fjölskyldumyndina Hansel and Gretel, frá árinu 1987, og hins vegar hrollvekjuna og hasarmyndina Hansel & Gretel: Witch Hunters, frá árinu 2013.

Og hryllingurinn byrjar strax á fyrstu mínútu.

Heldur ófrýnileg norn mætir grunlausum áhorfendum nýju myndarinnar.
Heldur ófrýnileg norn mætir grunlausum áhorfendum nýju myndarinnar. Skjáskot/Netflix

„Nei, þetta getur ekki verið“

„Þegar norninni brá fyrst fyrir, þá ýtti ég á pásu og hugsaði með mér: nei, þetta getur ekki verið,“ segir Leifur. „Mér fannst það líka skrýtið í upphafi, hversu ný myndin leit út fyrir að vera, því ég hafði tekið eftir ártalinu 1987 í yfirlitinu.“

Þótti honum þó ólíklegt að myndin væri vitlaust merkt, og ýtti því aftur á spilunartakkann.

„Þá líða ekki meira en fimm sekúndur þar til nornin er komin með hníf upp að hálsinum á öðru barninu. Þá stoppaði ég um leið og lét þar við sitja,“ segir Leifur og bætir við að sonur sinn hafi eiginlega ekki náð að meðtaka hvað var í gangi þessar fyrstu mínútur, sem betur fer.

„Christmas Vacation varð þá fyrir valinu,“ segir Leifur og hlær við. „Hún var aðeins skárri, mér finnst hún reyndar frekar slök en drengurinn fékk að velja.“

Einnig á sérstökum aðgangi fyrir krakka

Blaðamaður mbl.is athugaði sjálfur hvernig málum væri háttað á efnisveitunni og gat sannreynt fullyrðingar Leifs.

Þá ber að geta þess að Netflix býður upp á sérstakan aðgang fyrir krakka, svo foreldrar geti áhyggjulausir ljáð þeim fjarstýringuna í vissu um að þar sé aðeins barnvænt efni. Myndina er þó einnig að finna þar, merkta fyrir börn frá fimm til tíu ára.

Leifur hefur reynt að ná sambandi við Netflix, meðal annars í gegnum tölvupóst, en ekkert svar fengið. Þá hefur skráningu myndarinnar ekki verið breytt á veitunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert