Snjór og hálka taka við af hlýindum

Gera má ráð fyrir snjókomu og hálku á vestanverðu landinu, …
Gera má ráð fyrir snjókomu og hálku á vestanverðu landinu, allt frá Suðurlandsundirlendinu og norður í Skagafjörð. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vegagerðin vekur athygli á afgerandi breytingum á veðri sem spáð er til morguns. Ökumenn á höfuðborgarsvæðinu og allt frá Suðurlandsundirlendinu norður í Skagafjörð mega reikna með snjó og hálku, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings.

Vegir eru greiðfærir um mestallt land eins og er en óvenjuleg hlýindin hafa verið á landinu undanfarna daga og vikur. Einar varar hins vegar við umskiptum sem verða í nótt þegar kaldara loft úr norðri kemur yfir landið eftir milda helgi þar sem hitinn hefur verið á bilinu fimm til tíu stig.

Veðurvefur Mbl.is

Aðfaranótt þriðjudags spáir Einar að síðasta gusan af hlýju lofti komi úr suðri með djúpri lægð sem þá leggur upp að landinu með suðaustanstormi og hlýindum. Eftir það séu vísbendingar um að hlýindakaflanum sé að ljúka og landið sé að fara inn í vetrarlegra veðurfar sem það eigi að venjast á þessum árstíma.

Veðurstofan varar við stormi með meira en 20 m/s norðvestan til á landinu. Einar segir að stormurinn verði aðallega bundinn við Vestfirði og élin sem fylgi honum verði dreifð. 

Tengist hlýindunum á norðurslóðum

Mikið hefur verið fjallað um óvenjuleg hlýindin á norðurskautinu í haust og byrjun vetrar. Þau hafa valdið því að hafísinn í Norður-Íshafinu hefur myndast seinna en oftast áður. Einar segir að hlýindin sem hafa verið á Íslandi í byrjun vetrar tengist þessu.

Frétt Mbl.is: Hitabylgja á norðurskautinu

Mildir vindar sunnan úr Atlantshafi hafi streymt yfir landið og haldið áfram með tilheyrandi hita og raka á norðurslóðum sem hefur valdið hlýindum þar. Þá segir Einar að vetrarísinn hafi ekki náð að myndast jafnhratt í kringum Svalbarða og áður og það hafi einnig stuðlað að óvenjulegum hlýindum.

Frétt Mbl.is: Sviptingar í veðrinu á morgun

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert