Hvattur til að fyrirfara sér

Gunnar Hrafn Jónsson, hefur fengið mikil viðbrögð frá fólki eftir …
Gunnar Hrafn Jónsson, hefur fengið mikil viðbrögð frá fólki eftir að hann greindi frá þunglyndi sínu.

Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, hefur fengið skilaboð frá fólki sem hefur hvatt hann til að fyrirfara sér eftir að hann greindi frá því í Facebook-færslu í gær að hann tæki sér tímabundið leyfi frá störfum á meðan hann leitaði sér hjálpar við erfiðu þunglyndi.   

„99,9% af viðbrögðunum hafa þó verið jákvæð,“ sagði Gunnar Hrafn í viðtali í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld og kvað viðbrögðin í raun yfirþyrmandi. Hann hefði ekki undan að svara þeim góðu kveðjum sem hann hefði fengið. „Ég hef líka fengið hjartnæm bréf frá fólki sem greinir mér frá sínu þunglyndi,“ sagði hann og bætti við að margir þeirra segðust jafnvel ekki hafa sagt sínum nánustu frá líðan sinni.

„Mér þykir vænt um öll þessi viðbrögð sem ég hef fengið.“

Gunnar Hrafn segir að það hafi vissulega verið stórt skref að greina frá veikindum sínum. „Mér fannst réttast sem þingmaður að greina kjósendum mínum frá því hvernig ástandið væri á mér og fjarlægja tabúið. Það á ekki að vera pukur og ég vil hjálpa öðrum að hætta þessum feluleik.“

Gunnar Hrafn kvaðst hafa þjáðst af þunglyndi frá unglingsaldri og að hann hafi misst þrjá nána vini úr sjúkdóminum. Sjálfur kveðst hann hafa íhugað sjálfsvíg oftar en einu sinni. Hann bendir á að 49 manns hafi tekið eigið líf í fyrra og að jafnaði séu það tvisvar til þrisvar sinnum fleiri sem fyrirfara sér árlega en deyja í umferðaslysum.

„Við þurfum að efla heilbrigðiskerfið og það verður efst á baugi hjá mér þegar ég kem aftur,“ segir hann.

Spurður hvort hann viti hvað valdi þunglyndinu nú segir hann „Þetta er skrýtinn sjúkdómur, sem hefur m.a. verið tengdur við álag.“ Nýleg starfsskipti hans hafi því mögulega haft sitt að segja. „Ég er búinn að vera nokkuð góður í ár, ég fór í áfengismeðferð í fyrra og það breytti lífi mínu. Það hefur allt gengið vel eftir það, þar til boðefnin í hausnum á mér fóru að segja annað.“

Gunnar Hrafn segist hafi mjög góðan lækni, sem hann hafi leitað til aftur. „Við munum m.a. endurskoða mína lyfjagjöf.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert