Viðbúið að rannsókn yrði erfið

Tvímenningarnir sökuðu Öldu um að hafa mis­beitt lög­reglu­valdi sínu við …
Tvímenningarnir sökuðu Öldu um að hafa mis­beitt lög­reglu­valdi sínu við rann­sókn LÖKE-málsins svokallaða sem snerist um meintar uppflettingar í innra kerfi lögreglunnar. AFP

„Það mátti við því búast að það væri erfitt að fá svona háttsettan yfirmann lögreglu rannsakaðan almennilega,“ segir Garðar Steinn Ólafsson, lögfræðingur Gunnars Scheving Thorsteinssonar lögreglumanns, sem ásamt starfsmanni Nova kærði Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, aðallögfræðing lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Settur héraðssaksóknari í málinu, Lúðvík Bergvinsson, hefur fellt málið niður þar sem hann telur litlar líkur á sakfellingu. Garðar Steinn ætlar að áfrýja þeirri niðurstöðu til setts ríkissaksóknara.

Frétt mbl.is: Mál Öldu Hrannar fellt niður

Tvímenningarnir sökuðu Öldu um að hafa mis­beitt lög­reglu­valdi sínu við rann­sókn LÖKE-málsins svokallaða sem snerist um meintar uppflettingar í innra kerfi lögreglunnar. Gunnar var upphaflega ákærður fyrir það en ríkissaksóknari féll síðar frá þeirri ákæru. Hann var hins vegar sak­felld­ur í Hæsta­rétti fyr­ir að hafa greint vini sín­um frá því á Face­book að hann hafi verið skallaður af ung­um dreng við skyldu­störf. Var hon­um þó ekki gerð refs­ing vegna máls­ins.

Í yfirlýsingu sem Alda Hrönn sendi fjölmiðlum í gær vísar hún í niður­stöðu setts héraðssak­sókn­ara þar sem seg­i að ekk­ert bendi til þess að „kærða hafi í heim­ild­ar­leysi rann­sakað málið, aflað upp­lýs­inga, dreift nekt­ar­mynd­um eða borið rang­ar sak­argift­ir á kær­end­ur. Enn frem­ur hafa ekki komið fram nein­ar upp­lýs­ing­ar sem færa rök að því að kærða hafi veitt fjöl­miðlum upp­lýs­ing­ar sem leynt áttu að fara, eða dreift þeim með ólög­mæt­um hætti, líkt og haldið er fram í kæru.“

Erfiðleikar við rannsókn

Garðar Steinn segir í samtali við mbl.is að í ákvörðun héraðssaksóknara komi fram að nokkuð erfiðlega hafi gengið að fá lögreglu til að aðstoða við rannsókn málsins. Lúðvík var skipaður saksóknari í LÖKE-málinu í ágúst en bæði embætti héraðssak­sókn­ara og rík­is­sak­sókn­ara lýstu sig van­hæf til að fjalla um það. 

„Hann fær einn lögreglumann í nokkur viðtöl en kæran kom fram allnokkru fyrir það,“ segir Garðar. „Í tvo mánuði þarf hann að berjast fyrir því að fá einhvern til að aðstoða sig.“

Garðar segir að engar skýrslur hafi til dæmis verið teknar af brotaþolum, þeim Gunnari Scheving og starfsmanni Nova. „Þannig að þær upplýsingar sem [héraðssaksóknari] hefur eru mjög takmarkaðar.“

Eftiráskýring ríkissaksóknara

Alda Hrönn hefur sagt að hún hafi eingöngu komið að rannsókn meintra brota lögreglumanna í LÖKE-málinu sem löglærður fulltrúi. Rannsóknin hafi verið á forræði ríkissaksóknara og að óskað hafi verið eft­ir aðstoð lög­reglu­stjór­ans á Suður­nesj­um þar sem Alda starfaði. 

Garðar Steinn efast hins vegar um að sú skýring ríkissaksóknara standist að settur saksóknari hafi gefið Öldu Hrönn munnleg fyrirmæli um að hefja rannsókn á LÖKE-málinu án þess að það hafi verið skráð fyrr en rannsókninni var lokið. Þetta kallar Garðar „eftiráskýringu.“

Hann segist því sammála því að mál skjólstæðings síns sé ekki líklegt til sakfellingar miðað við þau gögn sem fyrir liggja.

Garðar segir að ef þrýst væri á lögreglu að taka fleiri skýrslur, spyrja tiltekinna spurninga, væri hægt að varpa frekara ljósi á málið. 

„Ég held að lögreglumenn á Suðurnesjum myndu staðfesta að [Alda] hafi haft boðvald yfir þeim sem varalögreglustjóri þar, þrátt fyrir að hún hafi lagt fram eitthvert skipurit sem eigi að sýna annað. Ég held að þeir myndu ekki neita fyrir það að hún hefði gefið allar skipanir í rannsókninni, ef þeir yrðu spurðir að því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert