Fjárlög samþykkt af minnihluta

Fjárlög voru samþykkt á þingi í kvöld.
Fjárlög voru samþykkt á þingi í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Fjárlög fyrir árið 2017 voru samþykkt nú í kvöld á Alþingi með 27 atkvæðum, en 33 þingmenn greiddu ekki atkvæði. Þar með voru fjárlögin samþykkt með aðeins 43% atkvæða þingmanna.

Meðal breytinga í síðustu umræðu um fjárlögin var að færa til baka hluta af þeim tilfærslum sem höfðu verið gerðar fyrir aðra umræðu vegna hönnunar og byggingar á stjórnarráðsreitnum. Einnig var gerð millifærsla milli ráðuneyta vegna laga um höfundarréttalög og nýstofnaður sjóður fluttur í fjármálaráðuneyti úr menntamálaráðuneytinu.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði í jólakveðju sinni við lok þingsins að afgreiðsla fjárlaganna hefði sýnt styrk þings og að það hefði risið undir ábyrgð þrátt fyrir sérstakar aðstæður.

„Mætti segja að það hafi verið þroskandi og lærdómsríkt að takast á við stórt og viðamikið mál án meirihluta á þinginu,“ sagði Steingrímur og bætti við að tekið hafði verið skref í þá átt að bæta ásýnd Alþingis með þessum vinnubrögðum.

Sagði hann þingið hafa sýnt þjóðinni að það hefði staðist prófið. Þá vísaði hann til þess að svipuð aðstaða hafi komið upp fyrir 37 árum síðan en þá hafi ekki náðst samstaða um gerð fjárlaga og bráðabirgðafjárúthlutun samþykkt.

Þá sagði Steingrímur að nýtt met hefði líklega verið slegið á þingi þegar 6 minnihlutaálit fylgdu fjárlögunum. Sagðist hann ekki minnast til þess að fleiri en 5 minnihlutaálit hefðu áður komið fram, en það var árið 1990 þegar sjávarútvegsnefnd klofnaði í fimm hluta. „Það met var slegið hér,“ sagði Steingrímur. Þakkaði hann því næst þingflokksformönnum fyrir lipurt samstarf sem og öðrum þingmönnum.

Sigurður I. Jóhannsson forsætisráðherra frestaði svo þingi til 24. janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert