Kæra mun ekki fresta brottflutningi

Mótmæli fyrir utan Útlendingastofnun. Mynd úr safni.
Mótmæli fyrir utan Útlendingastofnun. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Hælisleitandi, sem kærir ákvörðun Útlendingastofnunar um að hann skuli yfirgefa landið, getur eftir áramót þurft að gera það samt sem áður, þó kæran hafi ekki fengið meðferð hjá áfrýjunarnefnd.

Þetta er skýrt orðað í breytingu sem Alþingi samþykkti seint í gærkvöldi á lögum um útlendinga.

Segir í lögunum að frá áramótum og fram til 1. júlí 2017 muni kæra einstaklings ekki fresta réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar, um að hann skuli yfirgefa landið, í þeim tilvikum þegar stofnunin hefur metið umsókn hans um landvist bersýnilega tilhæfulausa, og hann kemur frá ríki sem er á lista hennar yfir örugg ríki.

Meirihluti umsókna frá öruggum ríkjum

Í greinargerð með frumvarpinu segir að mikill fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd hafi borist á árinu, og útlit sé fyrir að þær verði samtals fleiri en 1.100.

Aldrei fyrr hafa svo margir sótt um vernd hér á landi, en allt síðasta ár voru umsækjendurnir færri en sem nemur þriðjungi þeirra sem sótt hafa um í ár, eða 354 talsins.

Frétt mbl.is: Rúmlega þúsund hælisumsóknir

Meirihluti umsókna er frá öruggum upprunaríkjum, aðallega Makedóníu og Albaníu. Það sem af er ári hefur öllum slíkum umsóknum verið synjað. Þrátt fyrir það virðist ekkert lát á komum einstaklinga frá öruggum ríkjum, en í október og nóvember 2016 lögðu samanlagt 456 manns fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi, þar af voru 79% frá öruggum ríkjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert