Sorglega margir sem ekki eiga í nein hús að venda

Tekið er á móti konum sem eiga ekki í önnur …
Tekið er á móti konum sem eiga ekki í önnur hús að venda í Konukoti í kvöld. mbl.is/Goli

Allir sem búa á Íslandi geta orðið skjólstæðingar Rauða krossins á Íslandi, segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

„Við gerum engan greinarmun á þeim sem hér hafa alltaf búið eða þeim sem hingað hafa flust af einhverjum orsökum. Allir sem eru berskjaldaðir, einmana, veikir eða minni máttar eru okkar skjólstæðingar. Það er hlutverk okkar að vekja athygli samfélagsins á stöðu þeirra sem minna mega sín, sérstaklega þeirra sem ekki hefur mikil athygli beinst að. Í 92 ára sögu Rauða krossins hefur það verið leiðarljós okkar að veita aðstoð þar sem hennar er þörf og það hlutverk okkar breytist ekki, þótt verkefnin hafi breyst í gegnum tíðina,“ segir Kristín.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Kristín S. Hjálmtýsdóttir tók við starfi framkvæmdastjóra Rauða krossins á  Íslandi í upphafi árs og hún segir að starfið sé lærdómsríkt og gefandi og fjölbreyttara en hún hafi búist við.

Að sögn Kristínar hafa verkefni félagsins vaxið mjög á þessu ári. Bæði hefur starfsmönnum og sjálfboðaliðum fjölgað og ár frá ári fjölgar þeim verkefnum sem Rauði krossinn sinnir, ekki síst hvað varðar þá sem hingað leita eftir vernd frá stríði og öðrum hörmungum.

Á fimmta þúsund sjálfboðaliðar og allir mikilvægir

Rauði krossinn byggir starf sitt ekki síst á sjálfboðaliðum sem telja nú á fimmta þúsund og segir Kristín þá mjög mikilvæga fyrir allt starf Rauða krossins í landinu. „Grunngildi Rauða krossins eru þau sömu um allan heim, þau eru alltaf meginstefið í okkar starfi og starfsmenn og sjálfboðaliðar tileinka sér þau. Þrátt fyrir að stefna félagsins sé endurskoðuð reglulega eru grunngildin alltaf til staðar og þegar við rannsökum hvar skórinn kreppir að í íslensku samfélagi erum við með þau til hliðsjónar,“ segir Kristín og bætir við að velvilji almennings í garð Rauða krossins skipti sköpum í öllu starfinu, án hans væri félagið hjómið eitt.

Verslun Rauða krossins.
Verslun Rauða krossins.

Allir sem taka þátt í sjálfboðaliðastarfi Rauða krossins fara í gegnum námskeið þar sem farið er yfir grunngildi félagsins og hvernig maður starfar sem sjálfboðaliði „Má þar nefna hvernig við tökum þátt í umræðunni,“ segir framkvæmdastjóri Rauða krossins, en sjálfboðaliðarnir koma víða að og eru á öllum aldri. „Við leggjum áherslu á að taka vel á móti okkar sjálfboðaliðum og fylgja þeim eftir í starfi. Þegar þeir hætta hjá okkur þökkum við þeim líka fyrir vel unnin störf því starf félagsins væri lítilfjörlegt ef þeirra nyti ekki við.“

Kristín segir að sjálfboðaliðar vinni á mörgum ólíkum sviðum. „Sjálfboðaliðar í verkefninu „Föt sem framlag“ hittast í hverri viku, prjóna og sauma fatnað fyrir ung börn í Hvíta-Rússlandi,“ en sendir hafa verið út á bilinu 15-19 þúsund pakkar á ári, segir Kristín.

Með mannúð að leiðarljósi.
Með mannúð að leiðarljósi. mbl.is/Golli

Alls eru starfandi 42 Rauðakrossdeildir á landinu og er Kristín búin að fara tvisvar hringinn í kringum landið að heimsækja þær. „Það er fullt af dugmiklum sjálfboðaliðum út um allt land sem mynda sterka stoð undir allt okkar starf,“ segir Kristín.

80% af útgjöldum renna til innanlandsstarfs

„Við reiðum okkur á samvinnu við almenning á mörgum sviðum. Það er þess vegna nauðsynlegt að fólk geti treyst því að það sem það lætur af hendi renni til þeirra sem þurfa aðstoð. Nefna má sem dæmi að fatnaður sem settur er í gáma Rauða krossins, hvort heldur sem hann er seldur í verslunum Rauða krossins eða ekki, þar rennur andvirðið til þeirra sem þurfa á stuðningi að halda. Við þiggjum með þökkum alla vefnaðarvöru og höfum margar leiðir til að breyta henni í verðmæti bæði hér heima og erlendis, en bróðurparturinn fer til fólks hér á landi líkt og annað sem við komum að. Um 80% af útgjöldum Rauða krossins renna til innanlandsstarfs,“ segir Kristín.

 Einangrun rofin

Eitt af meginverkefnum Rauða krossins er að rjúfa einangrun fólks. Það er gert á ýmsan hátt, til að mynda með heimsóknum, opnum húsum og símavinum. Sjálfboðaliðar annast þessi verkefni með stuðningi frá starfsmönnum Rauða krossins. Heimsóknarvinir fara í heimsóknir til fólks og spjalla við það, en tilgangurinn er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju. Stundum fara vinirnir í gönguferð, bíltúr eða gera eitthvað annað.

Yfir fjögur þúsund sjálfboðaliðar starfa með Rauða krossinum á Íslandi.
Yfir fjögur þúsund sjálfboðaliðar starfa með Rauða krossinum á Íslandi. mbl.is/Styrmir Kári

Þá rekur Rauði krossinn hjálparsímann 1717. Hann er alltaf opinn allan sólarhringinn alla daga ársins og Kristín hvetur þá sem glíma við vandamál sem þeir ráða ekki við sjálfir og eiga í erfiðleikum með að hringja. „Stundum þarf fólk ekki meira en að heyra í einhverjum til að heimurinn líti örlítið betur út.“

Símavinir er ný þjónusta hjá Rauða krossinum, en það verkefni er svipað heimsóknavinum nema samskiptin fara fram í gegnum síma. Að sögn Kristínar kemur þetta fólki vel sem býr afskekkt, en ekki síður þeim sem ekki treysta sér til þess að taka á móti gestum eða hafa ekki aðstöðu til þess.

Kakósala Rauða krossins á Þorláksmessu.
Kakósala Rauða krossins á Þorláksmessu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sálrænn stuðningur mikilvægt verkefni

Sálgæslan og geðhjálpin eru líka áberandi í verkefnum Rauða krossins hér á landi því félagið rekur í samvinnu við aðra athvörf fyrir fólk með geðraskanir bæði á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Kristín tekur strákakaffi á Selfossi sem dæmi af góðu starfi sem skilar árangri. Þar hittast strákar í hverri viku til að rjúfa einangrun og byggja sig upp. Skyldumæting er á fundina, enda verkefnið unnið í samstarfi við Vinnumálastofnun.

Viðskiptavinir Sorpu hafa frá árinu 2000 getað gefið fatnað til …
Viðskiptavinir Sorpu hafa frá árinu 2000 getað gefið fatnað til Rauða krossins á endurvinnslustöðvum. mbl.is/Styrmir Kári

„Við sjáum strax að átak af þessu tagi skilar bættri sjálfsmynd drengja því stundum þarf lítið til þess að koma fólki á betri braut í lífinu,“ segir Kristín og bætir við að við síðustu endurskoðun á starfi Rauða krossins hafi verið ákveðið að beina sjónum að vanvirkum ungum drengjum sem eru til dæmis í tölvunni á nóttunni og sofa á daginn

„Okkar stefna er að halda ró okkar og ræða mál án fordóma og af yfirvegun. Það er eina leiðin til þess að eyða ótta við það sem fólk þekkir ekki,“ segir Kristín og bendir á að umræðan hafi á margan hátt breyst á undanförnum áratugum. Má þar nefna viðhorf í garð einstæðra foreldra, geðfatlaðra, HIV-smitaðra og fleiri. Þrátt fyrir málfrelsi eigi fólk að forðast sleggjudóma um menn og málefni. Ekki bara í dag, heldur alltaf.

Fjölmiðlar verði að gæta sín þar líkt og aðrir – að ýta ekki undir hatursorðræðu sem getur haft keðjuverkandi áhrif með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ekki eigi að skipta máli við fréttaflutning hvort sá sem staðinn er að afbrotum sé hælisleitandi eða Íslendingur að langfeðgatali, segir hún.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins.
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Jólin viðkvæmur tími

Deildir Rauða krossins veita í samstarfi við fleiri félög fólki aðstoð fyrir jólin á hverju ári. Aðstoðin tekur mið af aðstæðum hvers og eins og er fyrst og fremst í formi inneignarkorta í matvöruverslunum og eins býðst barnafjölskyldum sem búa við kröpp kjör að fá jólafatnað og gjafir fyrir börnin.

„Það eru sorglega margir sem  sem ekki eiga í nein hús að venda og í kvöld dvelja nokkrar konur í Konukoti, en það er neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur. Þar er tekið á móti konum alla daga ársins en sérstaklega er vel gert við þær á aðfangadegi jóla. Sami sjálfboðaliðinn hefur komið í mörg ár og eldað í Konukoti á aðfangadagskvöld. Engu skiptir hversu margar konur koma, það er alltaf nóg pláss, þær fá skjól í nótt, heita máltíð og jólagjöf.“

Nefna má sem dæmi að fatnaður sem settur er í …
Nefna má sem dæmi að fatnaður sem settur er í gáma Rauða krossins, hvort heldur sem hann er seldur í verslunum Rauða krossins eða ekki, þar rennur andvirðið til þeirra sem þurfa á stuðningi að halda. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Stuðningur við hælisleitendur sívaxandi verkefni

Meðal þeirra sem njóta stuðnings frá Rauða krossinum eru hælisleitendur og flóttafólk sem hingað kemur. Hælisleitandi er sá sem sótt hefur um hæli án tillits til þess hvort hann telst flóttamaður eða ekki. Flóttamaður er sá sem fengið hefur hæli og þar með viðurkenningu stjórnvalda á stöðu sinni. Rauði krossinn á Íslandi sér hælisleitendum fyrir löglærðum talsmönnum, réttaraðstoð og almennri hagsmunagæslu samkvæmt samningi við innanríkisráðuneytið frá 2014.

mbl.is/Hjörtur

„Okkar réttargæslumenn og aðrir starfsmenn og tugir sjálfboðaliða vinna mjög ötullega að því að gæta hagsmuna hælisleitenda, bæði hvað varðar málsmeðferð en einnig að þeir fái notið mannúðlegrar meðferðar á meðan mál þeirra er til meðferðar.“

Flóttamenn fá stuðning frá félaginu fyrsta árið sem þeir dvelja á Íslandi. Eins eru haldin opin hús fyrir flóttafólk og hælisleitendur og flóttabörn sem stunda frístundastarf íþróttafélaganna geta fengið styrk úr tómstundasjóði Rauða krossins sem og til að stunda tónlistarnám eða hvers kyns tómstundastarf.

„Við sinnum öllum börnum hvort sem þau eru fædd á Akureyri eða í Aleppo. Íslendingar hafa skrifað undir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það er skylda okkar að sinna öllum börnum sem búa eða dvelja hér á landi, óháð uppruna og má aldrei gefa afslátt af því þegar börn eiga í hlut,“ segir Kristín.  

AFP

Hún segir Rauða krossinn í góðu samstarfi við Útlendingastofnun, ráðuneytin og sveitarfélögin um móttöku flóttafólks og hælisleitenda. Rauði krossinn hafi þar ákveðið hlutverk samkvæmt samningum við stjórnvöld og sinni því en við gerum stundum miklu meira en okkur er ætlað samkvæmt samningum. „Ástæðan er sú að við horfum ekki upp á neyð heldur viljum við bregðast við. Það er eðli Rauða krossins að bregðast við neyð. Það er mikill vilji fyrir því hjá okkur að taka að okkur að sinna grunnþörfum þeirra sem hingað leita, enda á sviði sem við þekkjum vel.“

AFP

Heimsókn til Líbanon

Kristín var nýverið í Líbanon þar sem hún skoðaði flóttamannabúðir fólks frá Sýrlandi. Rauði krossinn á Íslandi er í samstarfi við Rauða krossinn í Noregi og í Líbanon um rekstur hreyfanlegrar heilsugæslu á hjólum og styrkingu á innviðum Rauða krossins í Líbanon.

„Það er rétt að nefna að utanríkisráðuneytið hefur stutt þessi verkefni okkar enda verkefni sem Íslendingar geta verið stoltir af því að styðja,“ segir Kristín.

AFP

Hún segir að það séu sendibílar sem séu útbúnir lækningatækjum er fara inn á svæði sem fáar aðrar hjálparstofnanir hafi aðgang að. Með í för eru læknar og hjúkrunarfólk sem sinna þeim er þurfa á læknisaðstoð að halda. Skiptir þar engu hver viðkomandi er, enda stefna Rauða krossins alla tíð að veita öllum aðstoð.

Hún segir aðbúnað í flóttamannabúðum í Líbanon vera mjög mismunandi og í sumum tilvikum sé hann hræðilegur en á öðrum stöðum skárri. Þetta hafi verið erfið ferð, en á sama tíma hafi verið gott sjá með eigin augum þær aðstæður sem fólk búi við. Von er á níu sýrlenskum fjölskyldum hingað til lands í janúar, en þær koma allar úr flóttamannabúðum í Líbanon.

Ain al-Hilweh-flóttamannabúðirnar í Líbanon.
Ain al-Hilweh-flóttamannabúðirnar í Líbanon. AFP

Rauði krossinn á Íslandi kemur að fleiri verkefnum en í Líbanon. „Við höfum verið dugleg að styðja við hjálparstarf alþjóðaráðs Rauða krossins í Sýrlandi og sýrlenska Rauða hálfmánans enda hafa þessi starfssystkini okkar unnið sleitulaust að því að bæta aðstöðu og draga úr þjáningum sýrlensku þjóðarinnar.

Eins og allir vita hafa átökin í Sýrlandi kostað fjölda mannslífa og um fjörutíu sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða hálfmánans í Sýrlandi hafa týnt lífi við störf undanfarin ár vegna átakanna. Það er erfitt að horfa upp á það þegar þau sem hjálpa eru orðin skotmörk í átökum því þá eru fá grið eftir. Þetta er reyndar þróun sem verður að snúa við en helst viljum við auðvitað að vopnuð átök heyri sögunni til.

Flóttamannabúðir.
Flóttamannabúðir. AFP

Við erum líka með verkefni í Malaví sem lítur að því að bæta heilsufar kvenna og barna sérstaklega, auka aðgengi að vatni svo fátt eitt sé nefnt.“ Af öðrum alþjóðlegum verkefnum má nefna aðstoð við flóttamenn frá Suður-Súdan sem leitað hafa skjóls í flóttamannabúðum í Úganda, nýlega björgunaraðgerð á Miðjarðarhafinu þar sem tveir íslenskir sendifulltrúar komu að björgun rúmlega 1100 flóttamanna úr hafi á aðeins nokkrum vikum.

Við höfum líka verið að flytja út íslenskt hugvit og það er gaman að segja frá því að í Minsk er rekið athvarf fyrir geðfatlaða að íslenskri fyrirmynd og sú fyrirmynd er Vin á Hverfisgötu sem Rauði krossinn rekur með aðstoð Reykjavíkurborgar. Ég verð líka að nefna að við gætum aldrei haldið úti öflugu alþjóðlegu hjálparstarfi án okkar Mannvina sem styðja starfið að ógleymdu utanríkisráðuneytinu sem er okkar stærsti samstarfsaðili,“ segir Kristín.

Börn í flóttamannabúðum.
Börn í flóttamannabúðum. AFP

Rauði krossinn er hluti af Almannavörnum á Íslandi og er alltaf á vakt, líka um jól og áramót. Félagið bregst við náttúruhamförum, hópslysum, húsbrunum og öðrum atburðum. Mörg hundruð sjálfboðaliðar eru reiðubúnir að aðstoða þolendur alvarlegra atburða, s.s. með opnun fjöldahjálparstöðva og sálfélagslegum stuðningi. „Áfallateymi Rauða krossins eru virkjuð í hverri viku og sjálfboðaliðar Hjálparsíma Rauða krossins veita fólki hjálp í nauðum hvenær sem er sólarhringsins. Rauði krossinn rekur allan sjúkrabílaflota landsins og hefur gert það nánast frá stofnun. Félagið stuðlar að því að almenningur geti brugðist við í neyð, s.s. með því að efla skyndihjálparþekkingu þjóðarinnar.“

Rauði krossinn útvegaði bedda sem notaðir eru á þeim stöðum …
Rauði krossinn útvegaði bedda sem notaðir eru á þeim stöðum sem hælisleitendur fá gistingu á meðan mál þeirra eru til skoðunar. mbl.is/Árni Sæberg

Kristín er með einföld lokaskilaboð. „Ég óska þess að jólin innihaldi þá hugsun að samskipti fólks eigi að byggja á mannúð og kærleika. Munum bara að við eigum eitt líf og sameiginlega veröld og samkvæmt mannúðarhugsjón Rauða krossins eru allir menn fæddir jafnréttháir. Fyrir okkur Rauðakrossfólk er það viðbót við hinn venjulega íslenska jólaanda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert