Enginn Ágústínus sem stjórnar á Íslandi

Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands. mbl.is/Golli

Það er merkilegt að heyra viðtöl við menn að reyna að laga til í rústum sundurskotinnar kirkju í Aleppo í Sýrlandi þar sem fólk vildi getað hlustað saman á jólafrásögnina á jólahátíðinni, sagði Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands í prédikun sinni í Dómkirkjunni í dag, jóladag, á sama tíma og „við erum hér uppi á Íslandi að fjargviðrast út af því að kirkjan stendur öllum opin, skólabörnum sem öðrum, á aðventunni sem og alla daga. Misjöfn eru viðfangsefnin í heimi hér,“ sagði Agnes.

Biskup fjallaði um fæðingu frelsarans í prédikuninni út frá frásögu Lúkasar guðspjallamanns. „Á bak við hana er ekki sú glansmynd sem við sjáum á myndum eða útskurði nú til dags. Þarna er saga um vald eins yfir heilli þjóð. Ágústínus keisari skipaði fyrir og lýðurinn hlýddi og ekki var tekið tillit til ástands fólks, það varð að fara eftir boðinu og láta skrásetja sig í sinni borg. Þess vegna fóru Jósef og María til Betlehem því þaðan var ætt og uppruni Jósefs,“ sagði Agnes.

Sagði hún enn fremur marga í þeim sporum í dag að þurfa að hlýða boði þeirra sem valdið hafa. „Valdið er vandmeðfarið og ekki sama af hvaða rótum það er runnið eða hvernig því er beitt,“ sagði Agnes og bætti við að Jesú hafi beitt valdi kærleikans og kirkjan beiti ekki veraldarinnar valdi þegar hún skírir og kennir.

„Skírninni og kennslunni er ekki þvingað upp á fólk. Þar hefur fólk vald til að velja og hafna. Undanfarin ár hefur upphafist mikil umræða í þjóðfélaginu um fræðslutilboð kirkjunnar. En eitthvað ber á þreytu í umræðunni síðustu daga um þá neikvæðni sem birtist víða t.d. um skólaheimsóknir barna,“ sagði Agnes.

Hún sagði menningararf okkar Íslendinga byggja m.a. á kristinni trú og það sé því í hæsta máta undarlegt ef sá arfur væru útilokaður frá næstu kynslóðum með því að loka kirkjum fyrir börnum. „Skoðun felur í sér vald þegar hún er farin að stýra því sem gert er eða sagt: Það er enginn Ágústínus hér á landi árið 2016 sem segir fólki hvað það á að gera heldur ríkir hér tjáningarfrelsi, leyfi til að hafa ýmsar skoðanir og láta þær í ljós,“ sagði Agnes í prédikun sinni.

Prédikunina má lesa í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert