Örlög Eze ráðast brátt

Eze Okafor er nú í Svíþjóð og bíður þess sem …
Eze Okafor er nú í Svíþjóð og bíður þess sem verða vill. Í janúar er niðurstöðu á umsókn hans um hæli af mannúðarástæðum að vænta frá Útlendingarstofnun. Úr einkasafni

„Ég er vongóður,“ segir Nígeríumaðurinn Eze Okafor, sem fékk þær fréttir rétt fyrir jól að umsókn hans um hæli af mannúðarástæðum á Íslandi verði afgreidd af Útlendingastofnun í janúar. Hann hefur beðið í ár eftir svari frá stofnuninni við þessari beiðni sinni. Mun lengur var hann þó hér hælisleitandi.

Eze var sendur héðan og til Svíþjóðar í maí á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Brottför hans var skilyrði fyrir því að umsókn um hæli af mannúðarástæðum yrði tekin til afgreiðslu. Síðustu mánuði hefur hann verið upp á náð og miskunn fólks í Svíþjóð kominn og m.a. dvalið hjá Íslendingum búsettum þar. Mánuðum saman fékk hann engin svör svo bara það að fá upplýsingar, um að svars sé að vænta innan fárra daga, er léttir. „En þetta hefur verið mjög erfitt, að flakka frá einum stað til annars og bíða,“ segir Eze sem er velgjörðarmönnum sínum innilega þakklátur.

Ofsóttur af Boko Haram

Eze flúði undan ofbeldi og ofsóknum vígamanna hryðjuverkasamtakanna Boko Haram í Nígeríu á sínum tíma. Hann hafði, líkt og margir aðrir karlmenn í landinu, verið hundeltur af samtökunum sem vildu að hann gengi til liðs við þau. Eze vildi alls ekki gera það sem varð til þess að hann og aðrir úr fjölskyldunni voru ofsóttir og beittir ofbeldi. „Þannig byrjuðu erfiðleikar mínir,“ segir Eze. „Þeir vildu drepa mig.“

Ástandið átti eftir að hríðversna. Bróðir hans lést í árás samtakanna á heimili þeirra. Sjálfur þurfti Eze að þola ofbeldi og þurfti m.a. að gangast undir aðgerð á andliti og höfði er hann kom til Íslands og sótti hér um hæli. 

Það var árið 2012.

Frá Nígeríu til Svíþjóðar til Íslands og aftur til Svíþjóðar

Eze sótti upprunalega um hæli í Svíþjóð en var synjað. Í kjölfarið ákvað hann að fara til Íslands. Hingað kom hann í apríl árið 2012 og sótti samstundis um hæli. Þar sem hann hafði áður sótt um hæli í Svíþjóð var umsókn hans ekki tekin til efnislegrar meðferðar hjá Útlendingastofnun á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá ákvörðun, sem lá fyrir í júní sama ár og hann kom hingað, kærði hann til innanríkisráðuneytisins. Á meðan hann beið niðurstöðu þaðan var brottvísun hans frestað og bið tók við. Tveimur árum eftir komu hans til landsins, í apríl árið 2014, kom loks niðurstaða ráðuneytisins sem var sú að ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka mál hans ekki til efnislegrar meðferðar var staðfest. 

Lögmaður Eze, Katrín Theodórsdóttir, ákvað að bera þessa niðurstöðu ráðuneytisins undir héraðsdóm þar sem óvissa var um það hvort sex mánaða frestur stjórnvalda til endursendingar væri liðinn en dómar höfðu verið misvísandi hvað það varðaði.

Niðurstaða héraðsdóms var sú að sýkna Útlendingastofnun og ríkið af kröfum Eze. Sá dómur féll 11. febrúar 2015, tæpum þremur árum eftir að hann kom til Íslands. Dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar en ákveðið var að fella málið niður í kjölfar þess að dómar um sambærileg mál féllu um haustið og eyddu þeir þeirri réttaróvissu sem hafði verið uppi um þennan þátt málsins.

Fann ástina á Íslandi

Á meðan á öllu þessu ferli stóð eignaðist Eze hér vini og kærustu. Hann fékk vinnu og gat séð fyrir sér.

Og enn átti málið eftir að fara um kerfið.

Sótt var um dvalarleyfi af mannúðarástæðum fyrir um ári og er nú loks niðurstöðu í því máli að vænta í janúar. Sótt var um dvalarleyfið á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og byggði umsóknin á grein laganna sem segir að ef hælismál hafi verið til umfjöllunar í kerfinu í meira en tvö ár geti stjórnvöld veitt viðkomandi hæli. „Það vita allir sem til þekkja hversu óbærileg óvissa það er að vera lengi í þessari stöðu,“ segir lögfræðingurinn Katrín um mál Eze. 

Samhliða umsókninni var sótt um leyfi fyrir Eze til að dvelja á landinu á meðan verið væri að afgreiða málið hjá Útlendingastofnun. Á þetta féllst stofnunin ekki og sagði að umsókn hans um dvalarleyfi yrði ekki tekin til meðferðar fyrr en hann færi af landi brott, þ.e. til Svíþjóðar. 

„Eze er hælisleitandi frá Nígeríu. Það var búið að synja honum um hæli í Svíþjóð og mál hans hafði tekið óralagan tíma í kerfinu hér,“ segir Katrín. „Þannig að við mátum það svo að það væru allar mannúðarástæður fyrir hendi til að leyfa honum að dvelja hér á meðan fjallað væri um umsóknina.“

Leiðbeint að sækja um aftur

Þessi niðurstaða Útlendingastofnunar var kærð til kærunefndar útlendingamála sem staðfesti hana. En í úrskurði nefndarinnar var Eze þó leiðbeint að sækja um dvalarleyfi að nýju með hliðsjón af dómum Hæstaréttar sem fjallað höfðu um fresti stjórnvalda til endursendingar. 

Þetta gerði Eze í maí og mætti í höfuðstöðvar Útlendingastofnunar til að sækja umsóknargögn. En þar er hann kyrrsettur, lögreglan kölluð til og hann settur í fangaklefa. Í kjölfarið var honum fylgt úr landi og til Svíþjóðar þar sem hann dvelur enn. „Þetta gerist þegar hann er að fara eftir leiðbeiningum kærunefndar,“ bendir Katrín á. 

Þegar þetta átti sér stað var Eze með góða vinnu á Íslandi og leigði sér íbúð. 

Útlendingastofnun miðar við að þrjá mánuði geti tekið að afgreiða umsóknir um dvalarleyfi en nú er liðið ár frá því að sótt var um dvalarleyfi af mannúðarástæðum og sjö mánuðir frá því að honum var vísað úr landi.

Í vikunni fyrir jól fékk Katrín loks þær upplýsingar frá Útlendingastofnun að niðurstaðan yrði ljós í janúar. 

Málið vakið athygli erlendra fjölmiðla

Mál Eze hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og hefur meðal annars sjónvarpsstöðin Al Jazeera sem og fjölmiðlar í heimalandinu Nígeríu fjallað um það. Í þeim fréttum hefur komið fram að Eze hafi flúið ofsóknir Boko Haram. Eins hefur margt gerst í tengslum við þau samtök í Nígeríu frá því að Eze flúði. Ástandið hefur versnað til muna. 

„Með hliðsjón af því hver þróunin hefur verið í hans heimalandi er að mínu mati full ástæða til þess að endurmeta stöðu hans,“ segir Katrín. „Stjórnvöld hér þurfa að spyrja sig hvort óhætt sé að senda hann aftur heim,“ en þar sem hælisumsókn hans í Svíþjóð var synjað á sínum tíma er möguleiki á að honum verði vísað þaðan og til Nígeríu á ný.

Mál Eze hefur nú þvælst um í kerfinu á Íslandi í rúmlega fjögur og hálft ár. Oft hefur hann þurft að bíða lengi eftir niðurstöðum stofnana og óvissa ríkt um framhald stöðu hans hér á landi, m.a. vegna réttaróvissu í dómskerfinu sem skýrðist ekki fyrr en með Hæstaréttardómi fyrir ári síðan. Það skýrir tafirnar og við bætist sú staðreynd að enn er ekki komin endanleg niðurstaða um hvort hann fái dvalarleyfi á Íslandi, ári eftir að sótt var um það.

Eze óttast mjög að verða sendur aftur til Nígeríu. Hann er hræddur um að það gerist fái hann ekki dvalarleyfi hér. „Ég vil búa á Íslandi,“ segir hann.

Tengdar fréttir af mbl.is:

Bíður örlaga sinna í Svíþjóð

Tíminn vinnur ekki með Eze

Vilja Eze Okafor aftur til Íslands

Flúði undan Boko Haram til Íslands

Handteknar í Icelandair-vél

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert