Sannar gjafir fyrir 27 milljónir

Næringarsérfræðingurinn Andrew Sammy sem starfar á vegum UNICEF við ungbarnaeftirlit …
Næringarsérfræðingurinn Andrew Sammy sem starfar á vegum UNICEF við ungbarnaeftirlit í Nígeríu. Ljósmynd/UNICEF

„Við erum í skýjunum, það er yndislegt að finna þennan mikla stuðning og vita að fólk er til í að kaupa þessar fallegu og skemmtilegu gjafir,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, kynningarstjóri og fjölmiðlafulltrúi UNICEF á Íslandi. Í ár seldust gjafir fyrir 27 milljónir króna í jólaátakinu Sannar gjafir sem UNICEF á Íslandi stendur fyrir. Þetta eru töluverð aukning frá því í fyrra en þá seldust gjafir fyrir 14 milljónir króna.

Sannar gjafir UNICEF eru lífsnauðsynleg hjálpargögn fyrir bágstödd börn. Fólk kaupir gjafirnar í nafni þess sem það langar að gleðja og gefur viðkomandi gjafabréfið. Í ár vara vinsælasta jólagjöfin hlý teppi sem eru meðal annars notuð í flóttamannabúðum til þess að hlýja börnum um kaldar nætur. Þá var vítamínbætt jarðhnetumauk fyrir vannærð börn einnig vinsæl gjöf en það er mikið notað í Nígeríu núna þar sem mörg börn láta lífið á hverjum degi út af vannæringu.

Í ár seldust gjafir fyrir 27 milljónir króna sem er …
Í ár seldust gjafir fyrir 27 milljónir króna sem er 13 milljónum meira en í fyrra. Ljósmynd/UNICEF

Nú fara allar pantanirnar frá Íslandi í birgðastöðu UNICEF og þaðan er þeim síðan dreift til landa út um allan heim, eftir því hvar þörfin fyrir þær er hvað mest. „Fólk getur því alltaf verið visst um að það sé að gefa eitthvað sem þörf er fyrir,“ segir Sigríður.

Hlý teppi og vítamínbætt jarðhnetumauk voru vinsælustu gjafirnar í ár en hægt var að kaupa ólík hjálpargögn á breiðu verðbili. „Ódýrasta gjöfin kostar um 600 krónur en síðan hækka þær í verði þannig það gátu allir fundið eitthvað við sitt hæfi.“

Sigríður segir gjafirnar hafa mælst vel fyrir en Sannar gjafir voru opnaðar á þúsundum heimila nú um jólin. „Það skapast líka oft skemmtilegar umræður í kringum svona gjafir. Menn fara að ræða málin og umræðan opnast út á við,“ segir Sigríður.

Jólaátakið Sannar jólagjafir.
Jólaátakið Sannar jólagjafir. Teikn­ing/​Bri­an Pilk­ingt­on
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert