Íslenskir rafvirkjar fjölhæfir

Bjarni Freyr Þórðarson rafvirki.
Bjarni Freyr Þórðarson rafvirki. mbl.is/Eggert

Besti árangur íslenskra þátttakenda í Evrópukeppni í iðn- og verkgreinum náðist nýverið. Keppnin sem nefnist EuroSkills fór fram 1. til 3. desember í Gautaborg í Svíþjóð. Alls tóku sjö Íslendingar þátt fyrir hönd Íslands en 44 þjóðir sendu fulltrúa í keppnina. 

Rafvirkinn Bjarni Freyr Þórðarson náði besta árangri íslenskra keppenda er hann hafnaði í fjórða sæti og var hársbreidd frá bronsverðlaunum. Bjarni fékk einnig viðurkenningu sem stigahæsti keppandinn af íslensku þátttakendunum.

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson afhenti keppendum og dómurum viðurkenningar fyrir þátttökuna og glæsilegan árangur, í hófi sem Verkiðn stóð fyrir í dag. 

„Þetta var mjög ánægjulegt og virkilega skemmtilegt að taka þátt,“ segir Bjarni sem er mjög sáttur við útkomuna. Hann viðurkennir samt að hann hefði viljað gera örlítið betur og ljóst að í honum býr talsvert keppnisskap.

Sinnti krefjandi verkefni í þrjá daga

Keppnin stóð yfir í þrjá daga og var unnið stíft frá kl. 9 til 6 alla dagana. Verkefnið í rafvirkjun var tvískipti, annars vegar var um að ræða hefðbundið raflagnaverkefni og hins vegar forritun á hússtjórnunarkerfi. Sá hluti er frábrugðinn því sem Bjarni vinnur almennt í sínu starfi en í því fólst að forrita kerfi sem stýrði öllu raflagnakerfi í húsi eins og ljósum, hita, gardínum og tónlist svo dæmi séu tekin.

Bjarni segir þetta hafi verið mjög krefjandi og allir þurftu að vinna hratt til að ná að leysa verkefnið innan tímaramma. Bjarni þurfti uppbótartíma til að ná að klára verkefnið líkt og margir aðrir keppendur. Þeir keppendur sem náðu að ljúka því innan tímarammans voru í efstu þremur sætunum. Sá sem sigraði var frá Sviss og í öðru sæti var keppandi frá Austurríki og þá Finni í því þriðja. 

„Stöndum mjög framarlega“

„Það var gaman að fá innsýn í það hvernig aðrir rafvirkjar vinna. Íslenskur rafvirki er mjög fjölhæfur og við stöndum mjög framarlega þegar kemur að mörgum hlutum eins og venjulegri raflagnavinnu. Í þeim hluta keppninnar áttu nokkrir í erfiðleikum með að leysa það,” segir Bjarni og bendir á að í þeim hluta hafi til dæmis verið verkefni sem hann gerir á venjulegum vinnudegi sem rafvirki.

Forritunarhluti prófsins reyndist Bjarna erfiðari enda vinna sem hann er ekki eins þjálfaður í. Hins vegar hefur hann mikinn áhuga á forritun og gæti vel hugsað sér að fara í frekara nám því tengdu. „Það er margt í boði sem hægt er að sérhæfa sig í og möguleikarnir eru endalausir,” segir Bjarni sem er greinilega á réttri hillu. Hann segist vel geta hugsað sér að taka aftur þátt í sambærilegri keppni. „Þetta er mjög skemmtilegt sérstaklega þegar spennufallið er búið,“ segir hann og hlær.

Hann segir nóg að gera fyrir rafvirkja á Íslandi í dag og bendir á að uppsveifla sé í faginu núna. Flestir dagar bjóða upp á fjölbreytt verkefni sem hann hefur gaman af að leysa. Hann starfar hjá fyrirtækinu Gaflarar ehf. í Hafnarfirði og bendir á að þar hafi allir staðið þétt við bakið á sér á meðan undirbúningi á keppninni stóð og nefnir sérstaklega á nafn meistara sinn Þorvald Friðþjófsson.  

Allir yngri en 25 ára 

Öllum þátttakendum á mótinu var boðið að taka þátt en einu skilyrðin sem þarf að uppfylla er að vera yngri en 25 ára. Bjarni er 21 árs gamall og var boðið að taka þátt því hann stóð sig vel á Íslandsmeistaramóti í rafvirkjun árið 2014. Hann útskrifaðist úr námi árið 2014.  

Í keppninni var einnig innbyrðiskeppni meðal þátttakenda. Reiknuð voru stig út frá frammistöðu þeirra í verkefnunum sem þau leystu. Það þykir gott að vera yfir meðaltali sem eru 500 stig. Bjarni Freyr var efstur íslenskra keppenda með 514 stig en þrír af sjö keppendum í íslenska liðinu fengu yfir 500 stig. 

Aðrir keppendur voru: Sara Aníta Scime í hárgreiðslu, Reynir Óskarsson í pípulögn, Bjarki Rúnar Steinsson  í málmsuðu, Anton Örn Gunnarsson í trésmíði, Axel  F. Friðriksson í grafískri hönnun og Iðunn  Sigurðardóttir í matreiðslu. 

Forseti Íslands veitti öllum þátttakendum í Euroskills viðurkenningu.
Forseti Íslands veitti öllum þátttakendum í Euroskills viðurkenningu. Ljósmynd/Jón Svavarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert