Átta slys í Silfru á síðustu sjö árum

Silfra á Þingvöllum.
Silfra á Þingvöllum.

Að minnsta kosti  átta köfunarslys hafa orðið í gjánni Silfru á Þingvöllum á síðustu sjö árum. Þar af hafa þrír kafarar látist, tveir erlendir og einn Íslendingur. Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, segir að herða þurfi eftirlit til að tryggja að reglum sé fylgt.

Í gær lenti kona í köfunarslysi í Silfru en komst til meðvitundar á slysstað. 

Frétt mbl.is: Komst til meðvitundar við Silfru

„Mjög ströng fyrirmæli“

„Samgöngustofa hefur gefið út mjög ströng fyrirmæli um hvernig köfunarfyrirtæki eiga að haga sinni þjónustu og sínu öryggiseftirliti. Svo eru reglur frá okkur, meðal annars um að ekki megi kafa niður fyrir 18 metra," segir Ólafur Örn.

„Fyrirtækin eiga að meta hvort viðkomandi er hæfur, hafi þekkingu og getu [til að kafa í Silfru]. [...] Svo kemur að þessari örlagastundu og fyrirtækin standa með viðskiptavin á bakkanum sem segist vera hæfur en svo kemur kannski í ljós að viðkomandi er ekki syndur.“

Að sögn Ólafs er þjóðgarðurinn eingöngu þjónustuaðili og liggur ábyrgðin fyrir bættu eftirliti hjá Samgöngustofu. „Ábyrgðin á að almennilega sé staðið að þessu tæknilega [er hjá Samgöngustofu]. Að græjurnar séu í lagi og að leiðsögumennirnir séu með menntun. Okkar verk er að gæta að því að þarna sé röð og regla, það séu ekki of margir ofan í í einu og að menn bóki sig. Við erum alltaf að bæta aðstöðuna og erum alltaf með starfsmann á vakt.“

Ólafur Örn Haraldsson við efsta hluta Almannagjár.
Ólafur Örn Haraldsson við efsta hluta Almannagjár. mbl.is/Sigurður Bogi Sigurðsson

7.000 einstaklingar á ári

Um 7.000 einstaklingar fara í köfun í Silfru á ári hverju en u.þ.b. eitt alvarlegt köfunarslys verður þar á sama tímabili. Ólafur segir stöðuna því alvarlega. „Ef við vissum að einn af hverjum 7.000 sem keyrir yfir Hellisheiðina myndi lenda í alvarlega slysi eða vera í mikilli hættu er ég nú hræddur um að við myndum ekkert sætta okkur við það.“

Að sögn Ólafs velta margir því nú fyrir sér hvort ekki þurfi að herða eftirlitið, til að mynda með því að krefja menn til að sýna fram á hæfni sína með skírteinum og öðru slíku.

Slys í Silfru

Í júní 2010 lést franskur kafari. Maðurinn var meðvitundarlaus þegar hann náðist upp úr vatninu og hófust lífgunartilraunir þegar í stað. Þær báru ekki árangur og úrskurðaði læknir manninn látinn.

Í nóvember 2011 lenti kafari í vandræðum með köfunarbúnað sinn. Kafarinn var fluttur á slysadeild en veikinda hans voru talin minniháttar.

Í apríl 2012 varð alvarlegt slys í Silfru og var fjölmennt lið björgunarmanna sent á staðinn. Þá var óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslu Íslands og var kafarinn, erlend kona á miðjum aldri, flutt á sjúkrahús í Reykjavík. Var hún fyrst um sinn á gjörgæslu en útskrifaðist þaðan daginn eftir að slysið varð.

Kafarar í Silfru.
Kafarar í Silfru. mbl.is/Ómar Óskarsson

Reglur hertar

Í desember sama ár varð banaslys þegar tveir menn voru við köfum í gjánni. Var þar um vanan kafara að ræða, íslenskan karlmann á fertugsaldri, sem hafði verið á um 40 metra dýpi þegar eitthvað óvænt kom upp á. Félagi mannsins fór þegar niður og kom honum upp á yfirborðið þar sem hafnar voru lífgunartilraunir sem ekki báru árangur og var maðurinn úrskurðaður látinn.

Í kjölfarið voru reglur um köfun í Silfru hertar og meðal annars gert óheimilt að kafa dýpra en 18 metra. Í frétt mbl.is um breytingarnar stendur:  „Áfram gild­ir að óheim­ilt er að kafa einn síns liðs í gjánni, óheim­ilt er að kafa í hella, rang­hala og göng og óheim­ilt er að fara í gjána og synda án hlífðarbún­ings. Ítrekað er að hver sá sem kaf­ar í Silfru ger­ir það á eig­in ábyrgð.“

Norðmaður kærður

Í maí 2013 varð þó enn á ný köfunarslys í gjánni en þar var á ferð Norðmaður sem kafaði án viðeig­andi búnaðar og til­skil­inna leyfa í trássi við lög og regl­ur. Kafarinn var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar. Þjóðgarðsvörður kærði manninn til lögreglu en Hæstiréttur sýknaði hann og sagði að það skorti laga­stoð fyr­ir því að maður­inn hefði unnið sér til refs­ing­ar með hátt­semi sinni.

Um tveimur árum síðar, í maí 2015, slasaðist erlendur kafari við köfun í Silfru en hann var með meðvitund þegar neyðaraðstoð barst. Var hann fluttur á slysadeild og útskrifaður þaðan daginn eftir.

Í janúar á þessu ári lést erlendur ferðamaður svo eftir köfunarslys í Silfru. Konan var 26 ára gömul. Slysið átti sér stað þann 26. janúar og lést hún tveimur dögum síðar á gjörgæsludeild Landspítalans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert