Engin þörf á að biðjast afsökunar

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segist margsinni hafa farið yfir fréttagildi …
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segist margsinni hafa farið yfir fréttagildi Panamaskjalanna með fréttastjóra og niðurstaðan hafi ætíð verið sú sama. mbl.is/Þórður

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir ekki ástæðu til að biðjast afsökunar á fréttum RÚV af Wintrismálinu svokallaða. Þetta kemur fram í skriflegu svari útvarpsstjóra á vef RÚV við opnu bréfi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, sem birt er í Morgunblaðinu í dag.

Í greininni sinni segist Sigmundur Davíð hafa verið órétti beittur þegar fréttamenn sænska Ríkissjónvarpsins tóku við hann viðtal vegna Wintrismálsins og í framhaldi í umfjöllun Kastljóss um Panamaskjölin.

Í svari sínu segir Magnús Geir að hann hafi margsinnis farið yfir málið með fréttastjóra á liðnu ári og niðurstaðan hafi ætíð verið sú sama – að fréttagildi málsins væri ótvírætt og ætti erindi við almenning í landinu. „Þær upplýsingar sem fram komu í umræddum þætti standa og hafa ekki verið hraktar. Með umræddum fréttaflutningi var Ríkisútvarpið að sinna sínu hlutverki og skyldum. Því er ekki tilefni til afsökunarbeiðni Ríkisútvarpsins vegna málsins,“ segir í svari útvarpsstjóra.

Fjölmiðlar eigi að vera fulltrúar almennings og sem slíkir beri þeim að spyrja kjörna fulltrúa út í málefni er þá varðar. „Það sama á við um Sigmund Davíð og aðra kjörna fulltrúa en auk þess að vera alþingismaður, þá var hann forsætisráðherra í þrjú ár og formaður í stjórnmálaflokki um árabil.“ Segir Magnús Geir Sigmund Davíð hafa ítrekað fengið tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og að fjallað hafi verið um þau í miðlum RÚV.

Bendir hann Sigmundi Davíð því næst að beina máli sínu til til sjálfstæðrar siðanefndar eða Blaðamannafélags Íslands telji hann sig vera beittan órétti. „Ef þingmaðurinn telur á sig hallað þá hvet ég hann til að beina málum í þennan formlega farveg sem er til staðar fyrir hann eins og aðra,“ segir í svari útvarpsstjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert