Erfitt ár í vændum hjá háskólanum

Framlög til Háskóla Íslands eru um milljarði lægri en fjárþörf …
Framlög til Háskóla Íslands eru um milljarði lægri en fjárþörf hans samkvæmt háskólaráði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Háskóli Íslands er verulega undirfjármagnaður en um milljarði munar á framlögum sem skólinn fær á fjárlögum og þess sem háskólaráð telur þörf á. Jón Atli Benediktsson rektor segir að næsta ár verði háskólanum erfitt þrátt fyrir að um hálfum milljarði hafi verið bætt við upphaflega fjárlagafrumvarpið.

Fjármálanefnd háskólaráðs Háskóla Íslands fundaði óformlega í morgun og fór þar yfir fjárhagsáætlun næsta árs. Jón Atli segir að nefndin reyni nú að lenda málum þannig að skólinn haldi sig innan þess ramma sem honum sé settur í fjárlögum næsta árs.

Samkvæmt mati háskólaráðs hefði háskólinn þurft um einn og hálfan milljarð króna til viðbótar en hann fékk um 480 milljónir aukalega frá fjárlagafrumvarpinu sem upphaflega var lagt fram. Raunhækkun á framlögum til HÍ nemur um hundrað milljónum króna á næsta ári fyrir utan féð sem bætt var við en Jón Atli segir að reiknað sé með að halli verði á rekstri skólans í ár sem nemur rúmum 300 milljónum króna.

„Næsta ár verður mjög erfitt fyrir okkur, það er alveg ljóst,“ segir rektor.

Rætt um hærri framlög frá því vel fyrir kosningar

Guðmundur Ragnar Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu Háskóla Íslands, sem sat fund fjármálanefndarinnar í dag segir að aðallega hafi verið fjallað um hvernig viðbótin við upphaflega fjárlagafrumvarpið dreifist niður á svið skólans. Hún sé engu að síður langt því frá að leysa vandamál skólans.

„Við vitum ekki nákvæmlega fyrr en í janúar hver fjárhagsstaða einstakra deilda eða eininga verður þar sem enn er unnið í fjárhagsáætlanagerðinni. Við hefðum þurft að sjá mörg hundruð milljónir í viðbót ef vel ætti að vera. Það hefur ítrekað komið fram í viðræðum við stjórnvöld og í fjölmiðlum frá því vel fyrir kosningar,“ segir hann.

Árið hefði þó orðið enn erfiðara ef viðbótin á fjárlögum sem Alþingi samþykkti hefði ekki komið til. Rektor bendir á að framlögin til háskólans séu enn langt frá markmiðum um framlög á hvern nemanda. Til stóð að ná meðaltali OECD-ríkja í þeim efnum á þessu ári en til þess segir rektor að vanti átta milljarða króna upp á fyrir háskólastigið á Íslandi. Þá þyrfti að tvöfalda framlögin til að ná meðaltali Norðurlandanna sem stefnt sé að því að ná árið 2020.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn

Of snemmt að segja til um aðgerðir

Mikill niðurskurður hafi átt sér stað frá hruni og á þeim tíma hafi fjárfestingar í innviðum setið töluvert á hakanum. Háskólinn hafi ekki getað fjárfest í tækjabúnaði og fleiru sem hefði þurft að gerast til þess að styðja starfsemina betur.

„Það er alveg ljóst að Háskóli Íslands er verulega undirfjármagnaður en við verðum bara að vinna með það sem við höfum. Við munum ganga til samninga við mennta- og menningarmálaráðuneytið á nýju ári og munum kynna vandann fyrir nýjum ráðherra,“ segir Jón Atli.

Rektor segir of snemmt að segja til um til hvaða aðgerða verður gripið til þess að ná endum saman í rekstrinum á næsta ári. Hann býst ekki við því að draga muni úr námsframboði á næstu mánuðum. Ef til þess komi muni það gerast síðar.

„Háskóli Íslands hefur mjög miklar skyldur gagnvart íslensku samfélagi. Þetta er breiður háskóli og við reynum að halda uppi þeirri starfsemi sem búist er við af okkur með þeim gæðum sem fólk ætlast til,“ segir Jón Atli.

Uppfært 15:12 Upphaflega stóð að upphæðin sem bætt var við framlög til Háskóla Íslands frá upphaflega fjárlagafrumvarpinu hafi verið 490 milljónir króna. Hún var í raun um 480 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert