Fróðleiksnáma um eldfjöllin

Bárðarbunga.
Bárðarbunga. ljósmynd/Oddur Sigurðsson

Vefur með margvíslegum upplýsingum um íslensk eldfjöll og eldgos er kominn í loftið en hann er hluti af vinnu við hættumat fyrir eldgos á Íslandi. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands (HÍ), segir vefinn hafa vakið mikla hrifningu þegar hann hefur verið kynntur erlendis. 

Tveimur verkefnum vegna gerðar hættumats fyrir eldgos á Íslandi er lokið, að sögn Magnúsar Tuma. Hann er í stýrihópi verkefnisins fyrir hönd Jarðvísindastofnunar HÍ ásamt fulltrúum frá Veðurstofunni, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Vegagerðinni og Landgræðslu ríkisins.

Eldfjallavefurinn Catalogue of Icelandic Volcanoes, sem geymir miklar upplýsingar um íslensk eldfjöll og eldgos, er annað verkefnið sem er lokið. Gerð vefjar var kostuð af Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) og er vefurinn á ensku. Áhersla er lögð á myndræna framsetningu upplýsinga ásamt stuttum greinum.

Ritstjórar eru þau Evgenia Ilyinskaya eldfjallafræðingur, sem hefur leitt verkefnið, Guðrún Larsen jarðfræðingur, sem hefur samið hlutfallslega mest af efninu og þriðji ritstjórinn er Magnús Tumi sem einnig hefur skrifað margar greinar. Hann sagði að Sigrún Karlsdóttir, náttúruvárstjóri á Veðurstofunni, hafi annast umsýslu. Auk þessara eru margir höfundar greina úr hópi helstu sérfræðinga í jarðvísindum sem starfa bæði hér og erlendis.

Hugbúnaðarfyrirtækin Samsýn og Miracle hönnuðu vefviðmótið.

Íslandskort með eldstöðvum á vefnum Icelandicvolcanoes.is.
Íslandskort með eldstöðvum á vefnum Icelandicvolcanoes.is. skjáskot/IcelandicVolcanoes.is

Hinar ýmsu eldstöðvar, eða 32 eldstöðvakerfi, eru merktar á Íslandskort á forsíðunni. Með því að smella t.d. á Kötlu (KAT) opnast gluggi. Undir „Catalogue information“ er kaflaskiptur texti sem lýsir eldfjallinu og einkennum þess. Fyrst er stutt lýsing á Kötlu, svo ýmsar tölulegar upplýsingar og fróðleikur um sprungusveiminn.

Þá er flipi sem geymir ítarlegri upplýsingar í 14 stuttum köflum og loks er flipi sem geymir kortaþekjur með margvíslegum myndrænum upplýsingum. Þar má t.d. sjá á korti hvernig gjóskuþykktin hefur verið eftir hin ýmsu Kötlugos, í hvaða áttir gosefnin bárust og eins er hægt að sjá líkurnar á að aska frá Kötlu berist í hinar ýmsu áttir. Þá sýnir ein þekjan hraun sem runnið hafa frá Kötlueldstöðinni. Auk þess er tengill á ljósmyndir af eldstöðinni.

Sérstakur flipi sýnir eftirlit með virkni eldstöðva. Kristín Vogfjörð, hópstjóri jarðar og eldgosa á Veðurstofunni, annaðist þann hluta. Í tilviki Kötlu birtast súlurit sem sýna tíðni nýlegra jarðskjálfta, annars vegar í Kötluöskjunni og hins vegar í vesturhluta Kötlu, samanborið við meðalfjölda jarðskjálfta yfir langt tímabil. Á liðnu ári hefur virkni í Kötluöskjunni verið þrefalt meiri en að langtímameðaltali. Í vesturjaðri Kötlu hefur virknin á árinu verið um þriðjungur af meðaltalinu.

„Þetta hefur verið gríðarlega stórt verkefni. Við höfum kynnt vefinn á fundum erlendis og hann hefur vakið mikla hrifningu þar,“ sagði Magnús Tumi.

„Ég vona að það finnist fjármunir til að snúa honum á íslensku. Vefurinn geymir svo miklar upplýsingar. Hann er á ensku vegna þess að Alþjóðaflugmálastofnunin hefur greitt fyrir vinnuna að miklum hluta. Það verður að gera íslenska útgáfu ef við meinum eitthvað með því að ætla að halda áfram að tala íslensku. Skólabörn og almenningur eiga að geta nálgast þessar upplýsingar á íslensku. Það er næst á dagskrá hjá okkur að leita leiða til að vinna íslenska útgáfu.“

Kynna á vefinn betur um mánaðamót janúar og febrúar 2017.

Öræfajökull og Katla

Hitt verkefnið sem er þegar lokið er bæði fræðileg og hagnýt úttekt á jökulhlaupum samfara eldgosum í Öræfajökli og einnig áhrifum stórhlaupa frá Kötlu á Markarfljótsaurum. Skýrslan er aðgengileg á vef Veðurstofunnar. Þar er rýnt í það tjón sem slík hlaup geta valdið, berstöðu fólks gagnvart slíkum hamförum og rýmingar. Verkefnið var styrkt af Ofanflóðasjóði, Landsvirkjun og Vegagerðinni.

Skýrslan er ítarleg og skrifuð á ensku. Ástæða þess er að útlendingar komu að ritun hennar auk Íslendinga og með þeim hætti var hægt að fá erlenda sérfræðinga til að fara yfir verkið. Styttri útgáfa á íslensku upp á rúmlega 60 síður er væntanleg úr prentun mjög fljótlega. Magnús Tumi sagði að íslenska útgáfan verði einnig aðgengileg á vefnum.

Vinna við hættumatið heldur áfram. Nú er unnið við nokkur verkefni og fjalla þau m.a. um stór sprengigos, mat á hættu á eldgosum nálægt byggð og síðan er viðamikil úttekt á þróun Skaftárhlaupa sem ákveðin var eftir stóra Skaftárhlaupið sem varð í fyrra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert