Bjarni kominn aftur með umboðið

Bjarni Benediktsson á Bessastöðum í dag.
Bjarni Benediktsson á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur veitt Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, umboð til stjórnarmyndunar. 

Þessu greindi Bjarni frá eftir fund sinn með Guðna á Bessastöðum. Bjarni hef­ur rætt við for­menn Viðreisn­ar og Bjartr­ar framtíðar und­an­farna daga með rík­is­stjórn­ar­sam­starf í huga.

„Við höfum átt í óformlegum samtölum. Við höfum þokað málefnavinnunni nokkuð áfram en höfum ekki lokið myndun nýrrar ríkisstjórnar,“ sagði Bjarni og bætti við að ýmislegt standi út af borðinu.

„Komnir þó nokkuð langt“

„Það er samkomulag á milli okkar að láta reyna á það áfram. Við erum þó komnir þó nokkuð langt.“ Hann sagði mikilvægt að þessir þrír flokkar myndu ná að úttala sig um hlutina sérstaklega þar sem samstarf þessara þriggja flokka myndar minnsta mögulega þingmeirihluta. Bjarni viðurkenndi að það væru ákveðin veikleikamerki.

Bjarni sagði fullt tilefni til að hafa hlutina uppi á borðum og hafa þá formlegri. „Ég er mjög sáttur við það og nokkuð bjartsýnn á framhaldið.“ 

Ný ríkisstjórn fyrir 24. janúar

Ný ríkisstjórn verður líklega mynduð fyrir 24. janúar þegar þing kemur saman á ný, að sögn Bjarna. Hann mun skipa embætti forsætisráðherra ef flokkarnir ná saman. 

Bjarni Benediktsson fyrir utan Bessastaðir.
Bjarni Benediktsson fyrir utan Bessastaðir. mbl.is/Árni Sæberg

Forsetinn hitti Benedikt og Óttarr

Forseti Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fundar síns með Bjarna. Þar kemur fram að hann hafi boðað Bjarna á sinn fund eftir að hafa fundað með Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar og Óttarri Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, fyrr í dag.

Yfirlýsingin í heild sinni:

„Rúmur hálfur mánuður er liðinn frá því að Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, skilaði fyrir hönd þess flokks umboði forseta til stjórnarmyndunar. Þingstörf tóku þá við og hlé var gert á formlegum viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar sem nyti meirihlutastuðnings á Alþingi.

Frá því að þingi var frestað hafa átt sér stað óformlegar viðræður fulltrúa Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks um möguleika á stjórnarsamstarfi þessara flokka. Fyrr í dag gengu Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, á fund minn og lýstu vilja til að ganga til formlegra viðræðna við Sjálfstæðisflokkinn um myndun ríkisstjórnar þessara flokka, undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Í kjölfar þessa fundar, og í ljósi undangenginna viðræðna, boðaði ég Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, á fund minn. Að loknum samræðum okkar um stöðu mála fól ég honum umboð til stjórnarmyndunar.“

Frétt mbl.is: Bjarni er mættur á Bessastaði

Frétt mbl.is: Bjarni boðaður á Bessastaði

Fékk umboð fyrir tveimur mánuðum

Bjarni fékk umboðið til stjórnarmyndunar hjá forseta Íslands fyrir tæpum tveimur mánuðum en honum tókst ekki að mynda ríkisstjórn. 

Frétt mbl.is: Bjarni Benediktsson fær umboðið

Við það tækifæri sagði Guðni þann kost vera væn­leg­ast­an til ár­ang­urs að láta Bjarna fá umboðið eft­ir niður­stöður kosn­inganna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert