Ekki tilbúin að láta þessa peninga af hendi

Bensínstöð N1 Ægissíðu. Sé valið að fylla á bílinn með …
Bensínstöð N1 Ægissíðu. Sé valið að fylla á bílinn með debetkorti, tekur sjálfsafgreiðslan sjálfkrafa fyrirframgefna upphæð af kortinu og endurgreiðir síðan þegar í ljós kemur að upphæðin stemmir ekki við bensínmagnið sem var tekið. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ferð á bensínstöð N1 í Hæðasmára kostaði Söndru Bryndísardóttur fimm sinnum meira en til stóð. Teknar voru 30.000 krónur út af korti hennar í stað þeirra 5.000 kr. sem hún dældi fyrir á bíl sinn, en sjálfsafgreiðsla dælustöðvarinnar millifærði að auki 25.000 hámarkskröfu sem tekur nokkra daga að fá endurgreidda.

Sandra deildi þessari reynslu sinni í opinni færslu á Facebook og hefur fengið mikil viðbrögð. „Ég hef sjaldan verið jafn undrandi og í dag þegar ég hringdi í N1 og hlustaði á svar þjónustufulltrúans við fyrirspurn minni,“ segir í færslu Söndru.

Hún þurfti að stinga kortinu í sjálfsalann í tvígang, þar sem henni bauðst ekki að velja dælu í fyrra skiptið og ákvað þá að setja bara á bílinn fyrir 5.000 kr. Þegar hún kíkti næst í heimabankann sá hún að 5.000 krónurnar og 25.000 kr. til viðbótar höfðu verið teknar út af reikningnum.

„Mín fyrstu viðbrögð voru að þarna hefðu verið gerð einhver mistök og hringdi niður í N1 og talaði við þjónustufulltrúa,“ segir Sandra í samtali við mbl.is, en hún var að koma frá því að loka bankareikningi sínum eftir að hafa deilt mynd af reikningsnúmerinu á Facebook.

„Þetta kom þjónustufulltrúanum hins vegar alls ekkert á óvart. Hann sagði að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur, því  þetta væri í raun ekki úttekt og yrði millifært sjálfkrafa til baka eftir 2-3 daga.“

Kerfið virki með þeim hætti að þegar kort er sett í sjálfsalann og sá valkostur tekinn að fylla bílinn, þá leitar kortið að hámarksheimild, sem er fyrirframskilgreind af fyrirtækinu sem 25.000 kr. Sú upphæð er þá tekinn út og síðan millifærð til baka þegar sjálfsafgreiðslan sér að bensín var ekki afgreitt í samræmi við fjárhæðina. 

„Ég velti því fyrir mér hvernig í ósköpunum getur N1 boðið upp á svona ósvífin viðskipti og fengið hjá mér að láni 25.000 kr. í 2-3 daga? Ég er hrædd um að einhverstaðar myndi eitthvað heyrast ef ég tæki 25.000 kall upp úr peningaskúffu afgreiðslumannsins hjá N1 og segði svo hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur því ég myndi koma með peninginn til baka eftir 2-3 daga!,“ segir í færslu Söndru, sem kveðst vera alveg rasandi yfir þessu.

„Það er mjög bagalegt að hafa þetta svona, því maður er ekki alveg tilbúin að láta þessa peninga af hendi.“ Marga geti ennfremur munað um slíka upphæð í lok mánaðar. „Ég ræddi við þjónustufulltrúann um að þetta væri kannski ekki alveg nógu heppilegt, og þá sagði hann að það væri verið að reyna að vinna í þessu í samráði við Reiknistofu bankanna.“

Sandra Bryndísardóttir er ekki sátt við að N1 geti tekið …
Sandra Bryndísardóttir er ekki sátt við að N1 geti tekið fé af reikningum viðskiptavina og endurgreitt nokkrum dögum síðar. Ljósmynd/Sandra Bryndísardóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert