Fengi tónleikahaldara til að gráta

Norðurljós yfir Reykjavíkurtjörn.
Norðurljós yfir Reykjavíkurtjörn. mbl.is/Eggert

Gríðarlegur fjöldi ferðamanna hefur farið í norðurljósaferðir síðustu tvö kvöld. Einar Bárðarson, rekstrarstjóri Kynnisferða, segir ástæðuna meðal annars felast í slæmu veðri að undanförnu. Verkefni á borð við þetta krefjist þá mikillar skipulagningar.

„Við enduðum á að þurfa að loka fyrir skráningar,“ segir Einar í samtali við mbl.is, en þá var fjöldi farþega kominn vel á annað þúsund, hvort kvöldið um sig.

„Að hluta til var þetta uppsafnað, en það gerist stundum í norðurljósabaráttunni, svokölluðu, að það koma nokkur kvöld þar sem er ekki hægt að fara. Þá þurfum við stundum að þjóna svona stórum hópum, og gerum það vel þó ég segi sjálfur frá.“

Norðurljós yfir Reykjavík.
Norðurljós yfir Reykjavík. mbl.is/Golli

Áhugasamir um áramótabrennur

Bætir hann við að verkið geti verið vandasamt.

„Við komum þessu fólki út úr húsi og í bílana á rúmlega hálftíma, fjöldastjórnun sem fengi nú bara hörðustu tónleikahaldara til að gráta af hrifningu,“ segir Einar léttur í bragði.

Nóg er þá um að vera hjá ferðaþjónustunni í kvöld, en mörgum áhugasömum ferðamönnum verður skutlað um höfuðborgarsvæðið til að fylgjast með áramótabrennum.

„Það er full starfsemi hjá okkur, í raun er þetta eins og hver önnur helgi,“ segir Einar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert