Myrknætti í uppáhaldi lesenda Guardian

Rithöfundurinn Ragnar Jónasson.
Rithöfundurinn Ragnar Jónasson. mbl.is/Eggert

Skáldsagan Myrknætti eftir Ragnar Jónasson var ein af uppáhaldsbókum lesenda breska blaðsins The Guardian á árinu sem er að líða. Lesandi blaðsins segir bókina þá bestu í svonefndri Siglufjarðarseríu Ragnars og hún sé „fallega skrifuð og sögunni vindur glæsilega fram og fléttan læðist fram eins og lesandinn stari inn í frostþoku og bíði þess að eitthvað birtist út úr henni“.

Í tilkynningu frá bókaútgáfunni Bjarti kemur fram að skammt hafi verið stórra högga á milli hjá Ragnari að undanförnu. Nýjasta bók hans, Drungi, hefi verið meðal mest seldu skáldsagna ársins hér á landi, og risaforlagið Penguin hafi tryggt sér réttinn á henni áður en hún kom út á íslensku. 

Fyrr á þessu ári var Náttblinda valin besta þýdda glæpasagan í Bretlandi árið 2015. Þá eru framleiðendur Óskarsverðlaunamyndarinnar um Amy Winehouse með í undirbúningi þáttaröð eftir Siglufjarðarsyrpu Ragnars sem hófst með Snjóblindu.

Listi yfir bestu bækur ársins að mati lesenda The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert