„Álag á barnafjölskyldur er fáránlegt“

Leikskólinn Hjalli í Hafnarfirði.
Leikskólinn Hjalli í Hafnarfirði. mbl.is/Golli

Leikskólar Hjallastefnunnar á höfuðborgarsvæðinu munu frá og með 15. janúar bjóða fjölskyldum barna á leikskólunum að taka með sér tilbúnar kvöldmáltíðir þegar börn eru sótt á leikskólann. Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar, sendi foreldrum barna bréf milli jóla og nýjárs þar sem greint er frá þessu.

„Álag á barnafjölskyldur er fáránlegt í dag og mér finnst stundum að samfélagið mætti bretta betur upp ermar,“ segir Margrét Pála í samtali við mbl.is. Með þjónustunni verður langþráður draumur Margrétar að veruleika en hugmyndin er að auðvelda líf barnafjölskyldna og létta undir með þeim. 

Verði haldið í lágmarki

Verkefnið verður í samstarfi við veitingastaðinn Gló og mun foreldrum standa til boða að taka með sér kvöldverð fyrir alla fjölskylduna tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum, til að byrja með. Pöntun og greiðsla mun fara fram á netinu og afhending fer fram þegar börn eru sótt í leikskólann og verður reynt að halda verði í algjöru lágmarki. 

„Við ætlum okkur bara að ná núllinu, þetta er auðvitað smá aukakostnaður og Gló þarf að fá fyrir hráefni og vinnu en reynsla margra foreldra er, að það að fara í búðina og kaupa allt inn sem til þarf í eigin máltíðir, sá kostnaður hann er ekki lítill,“ útskýrir Margrét.

Margrét Pála Ólafsdóttir leikskólakennari og höfundur Hjallastefnunnar.
Margrét Pála Ólafsdóttir leikskólakennari og höfundur Hjallastefnunnar. mbl.is/Styrmir Kári

Hjallastefnan hefur starfað eftir eigin matarstöðlum í mörg ár að sögn Margrétar og er mikil áhersla lögð á hollt fæði í skólum stefnunnar. Í boði verða ýmist grænmetis- eða kjúklingaréttir og verða máltíðirnar svo gott sem tilbúnar þegar þær eru sóttar en miðað er að aðeins þurfi nokkur einföld handtök til að undirbúa máltíðirnar.

Ætla að bjóða frekari þjónustu

„Frá því við byrjuðum að starfa sjálfstætt með skólann okkar höfum við verið að brydda upp á nýjungum, ekki bara í uppeldisstarfinu sjálfu heldur líka í samvinnu við foreldra,“ segir Margrét en hún telur að til þess að ná árangri og tengslum við barn þá sé mikilvægt að njóta trausts fjölskyldunnar. „Þeim mun meira sem við getum gert fyrir barnafjölskyldur þeim mun betra verður líf barnsins sem við erum með í fanginu.“

Í könnun sem send var út til foreldra kom í ljós gríðarlegur áhugi fyrir því að boðið væri uppá að sækja máltíðir á leikskólann en einnig var áhugi fyrir því að leikskólinn tæki á móti þvotti og byði upp á að panta og sækja matvörur í leikskólann. Til stendur að bjóða einnig upp á slíka þjónustu í framhaldinu og eru þegar hafnar samningaviðræður við aðra aðila til að veita frekari þjónustu.

„Þetta var draumur minn þegar ég ákvað að reka sjálfstæða skóla þá vildi ég hafa frelsi til nýrra hugmynda og framkvæmda sem oft er þungt inni í hinu stóra kerfi,“ segir Margrét. „Barnafjölskyldur þurfa að geta komið heim til sín og átt tíma í friði og ró saman, það er það sem skiptir mestu máli,“ bætir hún við, en með þessari auknu þjónustu sé hægt að nýta ferðina á leikskólann í tvíþættum tilgangi og þannig fækka ferðum örþreyttra foreldra og barna í búðina. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert